Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigmundur vildi Sjálfstæðisþingmann í framboð

29.09.2017 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og félagar hans í nýstofnuðum Miðflokki buðu Haraldi Benediktssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formanni Bændasamtakanna sæti á lista Miðflokksins í komandi kosningum. Haraldur segist „ósköp þakklátur“ boðinu sem barst honum í gegnum sameiginlegan vin þeirra Sigmundar. Hann hafi þó afþakkað enda ánægður í sínum flokki og ekkert á leið þaðan.

„Þetta var nú ósköp vel meint og ég vona sannarlega að þeim gangi vel í sínu,“ sagði Haraldur í samtali við fréttastofu nú í morgun um tilboðið um vistaskiptin sem honum barst frá Sigmundi Davíð á dögunum í gegnum sameiginlegan vin þeirra beggja, hvers nafni Haraldur kýs að halda fyrir sig.

Tilboðið hljóðaði upp á öruggt sæti á lista Miðflokksins fyrir komandi kosningar. Oddvitasæti i Norðvesturkjördæmi. Haraldur hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi frá árinu 2013. Verið oddviti flokksins í kjördæminu síðan í kosningunum fyrir ári. Þar á undan hafði Haraldur verið virkur í félagsmálum bænda um árabil og formaður Bændasamtakanna í tæpan áratug áður en hann tók sæti á Alþingi.

Haraldur sagði það ekki koma sér á óvart að nýr flokkur Sigmundar beri í hann víurnar. Áherslur hans í byggða- og landbúnaðarmálum séu og hafi lengi verið í anda stefnu skandinavískra miðflokka, sem Miðflokkurinn muni líklega taka mið af. „Ég er hins vegar Sjálfstæðismaður og verð áfram,“ sagði Haraldur í samtali í morgun. „Ég hef verið Sjálfstæðismaður frá því ég var 12 ára og það er ekkert að breytast. Ég óska þeim hins vegar góðs gengis en einbeiti mér nú að því að kynna nýjar hugmyndir okkar Sjálfstæðismanna í byggðamálum á fundarferð um landið. Um þær eiga Miðflokkurinn og að ég tel flestir flokkar að geta sammælst um,“ sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.