Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigmundur hefur áhyggjur af „gamla bænum“

27.08.2015 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef borgaryfirvöld vanrækja það hlutverk - að verðlauna ekki menn fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsa fyrir að leggja til umhverfisins - þarf þar til gerð stofnun að grípa inn. Þetta skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á vefsvæði sínu.

Sigmundur Davíð lagði fram frumvarp á síðasta þingi sem miðaði að því að skapa sérstakan lagagrundvöll til að tryggja heildstæða vernd sögulegra byggða og tryggja varðveislu svipmóts og menningarsögu byggða.

Frumvarpið mætti mikilli andstöðu, meðal annars hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem taldi það ganga gróflega gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem ríkja um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Reykjavíkurborg sagði í umsögn sinni við frumvarpið að telja yrði með öllu óeðlilegt að ráðherra fengi framselt svo víðtækt vald til sín með reglugerð. 

Frumvarpið var síðan samþykkt við hávær mótmæli minnihlutans sem töldu aðfinnsluvert að færa völd úr höndum sveitastjórnar yfir til eins ráðherra. 

Í skipulagsmálum er mikilvægt að leggja línur á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 27. ágúst 2015

Í ítarlegum pistli á vefsvæði sínu skrifar forsætisráðherra að þróunin í skipulagsmálum borgarinnar sé uggvænleg. „Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.“

Hann segir að við hinn enda Lækjagötunnar standi til að byggja gríðarstór skrifstofu-og verslunarhús „sem gína munu yfir gamla bænum og leysa Esjuna af sem bakgrunnur miðborgarinnar.“

Sigmundur segir að fornleifarnar sem fundust á lóðinni við hlið Iðnaðarbankans verði friðaðar sem og hafnargarðurinn við hinn enda Lækjagötunnar. „Það er mikilvægt að menn noti tækifærið sem í því felst til að skoða hvernig byggingaráform á þessum stöðum geta bætt umhverfið og aukið verðmæti þess.“

Pistlinum lýkur svo á þeim orðum að það sé áfram mikil þörf fyrir að þar til gerð stjórnvöld gæti þess að þau miklu verðmæti sem liggja í sögulegri byggð glatist ekki.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV