Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigmundur hefði átt að hætta á þingi

08.04.2016 - 06:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi, er á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði átt að stíga skrefið til fulls og segja af sér þingmennsku. Þetta kemur fram í viðtali við Höskuld í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann ennfremur að eftir á að hyggja sjái menn að betra hefði verið ef Sigmundur Davíð hefði greint fyrr frá því sem upp kom um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris, í viðtali sem Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson tóku við hann 11. mars.

Höskuldur segir að sér hafi verið brugðið þegar hann horfði á Kastljósþáttinn, þar sem viðtalið var sýnt 3. apríl, og hann hafi verið dapur. Hann telur að Wintrismálið og framganga Sigmundar Davíðs í kjölfar Kastljóssþáttarins hafi skaðað ímynd landsins og trúverðugleiki þess hafi beðið hnekki. Framsóknarmenn átti sig einnig á því að flokkurinn sé í erfiðri stöðu vegna þessa, en styðji Sigmund engu að síður.

Höskuldur segist bera fyllsta traust til Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, og hann hefði helst viljað að stjórnin sæti kjörtímabilið á enda. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sagði aftur á móti í Kastljósi í gær, að hún væri þeirrar skoðunar að þau Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal hefðu bæði átt að stíga til hliðar, eins og Sigmundur Davíð, og að betra hefði verið að ganga til kosninga strax í vor en að fresta þeim til haustsins.