Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigmundur: „Ekki ég sem klauf þennan flokk“

28.09.2017 - 20:38
Mynd: Kastljós / RÚV
„Hvorki ég né konan mín höfum átt pening á aflandseyjum en það tekur tíma að koma því til skila,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsvarsmaður Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í Kastljósi í kvöld. Hann kveðst ekki ætla að rekja árásirnar á sig umfram það sem hann hafi gert í bréfi sínu til flokksmanna. „Ef flokksmenn í Framsókn vilja vita meira um þetta ræði ég það við hvern sem er.“

Sigmundur Davíð klauf sig út úr Framsóknarflokknum á sunnudag og tilkynnti um leið að hann ynni að stofnun nýs stjórnmálaafls. Því var svo gefið nafn síðdegis í dag - Miðflokkurinn. Samkvæmt könnun MMR, sem birtist í dag, fengi flokkurinn 7 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú.

Í í bréfi sem Sigmundur birti á vefsíðu sinni sagðist hann hafa valið þann kost frekar að stofna nýjan flokk frekar en að verjast sjöundu tilrauninni til að koma sér frá.  Í viðtali við Kastljós í kvöld kaus hann að fara ekki frekar út í þessa sálma en hann gerði í bréfinu. „Ég ætla ekki að gera mikið af því opinberlega svona skömmu fyrir kosningar.“

Sigmundur var þó alveg afdráttarlaus þegar hann lýsti því yfir að það hefði ekki verið hann sem hefði klofið Framsóknarflokkinn. „Hann var sprengdur í loft upp á 100 ára afmæli hans,“ sagði Sigmundur og vísaði þar til formannskosninganna í Háskólabíó þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson var kosinn formaður. 

Hann vildi þó ekki skella skuldinni á Sigurð Inga sem slíkan heldur miklu frekar ákveðinn hóp innan flokksins sem hafi viljað losna við hann með hvaða aðferðum sem er.

Sigmundur kvaðst hafa tekið eftir því að það hefðu verið margir sem ætluðust eða jafnvel vonuðust til að hann leiddi þá vinnu að sameina flokkinn upp á nýtt.  Og það hafi gefið til kynna að það væri í raun hann sem stýrði flokknum þótt kominn væri nýr formaður. „En það er mjög erfitt þegar búið er að setja mann í þá stóðu að maður hefur enga aðkomu að neinum meiriháttar ákvörðunum.“

Þegar talið barst að Panamaskjölunum - umfjöllunar sem leiddi til afsagnar hans sem forsætisráðherra  - sagðist Sigmundur búinn að margsvara öllum spurningum varðandi það mál. Til að mynda um kröfur sem Wintris átti í þrotabú gömlu bankanna.

Sigmundur sagði að  allar kröfur sem Wintris hefði átt í bönkunum hefðu verið í eðli sínu nákvæmlega eins og kröfur fólks sem átti pening í íslensku bönkunum fyrir hrun. „Það voru engar kröfur keyptar eftir hrun eins og vogunarsjóðirnir gerðu. Á þessu er algjör eðlismunur - annar tapaði á hruninu en hinn keypti þær til að græða á því.“ 

Og undir umræðunni um Panamaskjölin gagnrýndi Sigmundur að hann hefði verið boðaður í viðtal þar sem honum hafi verið tjáð að ræða ætti nýjan stjórnmálaflokk og stöðuna. „Þetta er væntanlega það sem kallast hjá Ríkissjónvarpinu „að vera Shanghæjaður“ í þátt. Þótt auðvitað megi ekki grínast með slíka hluti,“ sagði Sigmundur. „Þú mátt grínast eins og þú vilt,“ svaraði Einar Þorsteinsson, umsjónarmaður Kastljóss í kvöld. 

Sigmundur sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því þótt rætt hafi verið um það við síðustu stjórnarmyndun að Framsókn hefði ekki verið boðið að borðinu vegna hans.  „Að sjálfsögðu leitast menn eftir því að komast í ríkisstjórn og ég hef aldrei verið jafn umdeildur og fyrir kosningarnar 2013. En um leið og þeim var lokið myndaðist biðröð fyrir utan.“ Miðflokkurinn myndi þó ekki fara í neitt ríkisstjórnarsamstarf nema með ásættanlegan málefnagrundvöll.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að ofan. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV