Sigmundur Davíð sendi AGS og ESB tóninn

17.06.2013 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli í dag að alþjóðastofnun yrði ekki látin segja þjóðinni að ekki væri hægt að gera meira fyrir íslensk heimili og um leið og minnt væri á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins.

Sigmundur Davíð flutti í dag sína fyrstu þjóðhátíðarræðu. Hann sagði Íslendinga vilja taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi en: „Við munum hins vegar ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og minnt er á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins.“

Sigmundur ræddi einnig makríl-deiluna við Evrópusambandið og sagði að í ljósi umræðunnar um áhrif aðildar Íslands að ESB hlytu Íslendingar að líta til þess hvort Evrópusambandið myndi sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar í eigin lögsögu. „Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni  óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu.“

Sigmundur gerði einnig umræðuna um þingsetningarræðu forseta Íslands að umtalsefni. Hann sagði að líklega hefðu fáir trúað því  árið 1944 eða 1994 að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. „ Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.“

Sigmundur ræddi einnig Iceasave-málið og sagði Íslendinga löngum hafa verið sjálfstæða í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. „Það sýndi sig vel í Icesave deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur kom víða við í ræðu sinni, ræddi meðal annars um mikilvægi menntunar, hún yrði seint ofmetin, þekking verði og yrði undirstaða framfara. „Til að við getum virkjað hugvitið og þekkinguna þarf að huga að uppbyggingu menntakerfisins,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði einnig nauðsynlegt að gæta þess að hér yrðu ekki tvær eða fleiri þjóðir í sama landi. Forsætisráðherra nefndi þar sérstaklega skilin milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. „Ýmsar vísbendingar eru um að þau séu að dýpka og þar verður að sporna við fótum með því að stuðla að sambærilegum lífskjörum, lífsgæðum og þjónustu hvar sem er á landinu. “

 

 

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi