Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigmundur Davíð metur stöðu sína góða

23.09.2016 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég met stöðu mína innan þingflokksins og innan flokksins bara góða,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að loknum þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag. Boðað var til fundarins klukkan eitt með stuttum fyrirvara. Fundurinn var mun lengri en búist hafði verið við og lauk honum ekki fyrr en um hálf fimm. 

Sigmundur Davíð segir að forystumálin hafi verið rædd á fundinum, en staða sín sem formanns sé áfram sterk.

„Ég met stöðu mína innan þingflokksins og innan flokksins bara góða. Við erum og eigum að vera að mínu mati samheldinn og öflugur hópur, Framsóknarflokkurinn, og það höfum við verið. Og engin ástæða til annars en að við verðum það áfram,“ segir Sigmundur Davíð.

Forystumálin hafi verið rædd á fundinum, ásamt öðru, enda stutt í kosningar.

„Og eitt af því sem við fórum yfir var þessi umræða sem hefur verið í gangi um flokkinn og það hvernig menn reyna kannski stundum að búa til eða setja af stað að óþörfu umræðu um einhvern ágreining sem þarf ekki að vera til staðar. Þannig að þetta var bara mjög fínn fundur.“

Var þá ekki rætt um þína framtíð sem formaður flokksins?

„Við veltum fyrir okkur komandi flokksþingi. Og það liggur fyrir að á flokksþinginu verður kosið um forystu.“

Er staða þín jafnsterk eftir þennan fund eins og fyrir hann?

„Ég vona að hún sé sterkari ef hann hefur einhverju breytt. En þessi fundur var nú ekki til þess ætlaður að kveða upp úr um það enda er það flokksþing sem kýs forystu,“ segir Sigmundur Davíð.