Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigmundur Davíð á leið til Líbanon

30.01.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, er á leið til Líbanon. Þar fundar hann með forsætisráðherra landsins og hittir fulltrúar hjálparsamtaka. Á miðvikudag heldur hann svo til London, á alþjóðlega ráðstefnu um Sýrland.

Sigmundur Davíð heldur utan síðar í dag og kemur til Líbanon á morgun. Þar stendur til að skoða aðstæður flóttafólks og afla upplýsinga um hvernig alþjóðleg aðstoð nýtist best á svæðinu. Langstærstur hluti flóttafólks sem flúið hefur borgarastríðið í Sýrlandi, hefst nú við í nágrannaríkjunum. Sigmundur Davíð mun hitta fulltrúa hjálparsamtaka sem starfa á svæðinu og eiga fund með forsætisráðherra Líbanons, til að ræða áhrif flóttamannamála á líbanskt samfélag og almennt um samskipti Íslands og Líbanons.

Á miðvikudag flýgur Sigmundur Davíð svo til London, þar sem hann tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um málefni Sýrlands. Þar verður áhersla lögð á hvernig finna megi fé til að hægt sé að sjá Sýrlendingum fyrir nauðþurftum. Þrettán og hálf milljón Sýrlendinga innan landamæra Sýrlands er á vergangi innan landsins eða þarf á neyðaraðstoð að halda. Rúmar fjórar milljónir til viðbótar hafa flúið land.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs segir að ferðin hafi verið í bígerð í nokkurn tíma. Sigmundur Davíð hafi lengi ætlað að fara til Líbanon og kynna sér aðstæður flóttamanna þar.

Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í gær að veita þremur milljónum króna í gerð heimildarmyndar um sýrlenska flóttamenn.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV