
Siglufjarðarvegi lokað vegna skriðufalla
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Dalvík hafa engar tilkynningar borist um að flætt hafi inn í hús vegna vatnsveðursins en hálfgert flóð myndaðist þó á Hvanneyrabraut þegar niðurföll réðu ekki við vatnselginn.
Fram kemur á vef Fjallabyggðar að yfirfallsræsi hafi stíflast en engar skemmdir hafi hlotist af - töluvert af smágrjóti hafi þó flotið niður eftir veginum.
Sveinn Sófaníasson, hjá vélaleigunni og steypustöðinn Bás, var að gera sig kláran til að fara skoða aðstæður á Siglufjarðaveginum. Hann segist í samtali við fréttastofu ekki vita hvernig það muni ganga því byrjað væri að rigna aftur.
Jón Trausti á Sauðanesi segist ekki gera sér grein fyrir því hversu stórar skriðurnar væru sem hefðu lokað veginum - ein þeirra gæti verið 20 til 30 metra breið. Nokkrar hefðu fallið fyrir ofan bæinn.