Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigla með plastúrgang heimsálfa á milli

01.06.2019 - 10:04
Erlent · Plast
Mynd: EPA-EFE / EPA
Við ætlum ekki að vera ruslahaugar ríkari þjóða segja stjórnvöld í Malasíu og á Filippseyjum, sem nú hyggast skila hundruðum tonna af plastúrgangi meðal annars til Kanada.

Í áraraðir hafa vestræn ríki sent endurvinnanlegt plast til ríkja í Asíu og Afríku til endurvinnslu. Undanfarin misseri hafa staðið yfir deilur vegna flutninganna vegna þess að bæði yfirvöld í Malasíu og á Filippseyjum segja sendingarnar hafa innihaldið umtalsvert magn af blönduðum og óendurvinnanlegum úrgangi.

Hart hefur verið deilt um ruslið mánuðum og jafnvel árum saman. Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sem er alla jafna ekkert sérlega orðvar maður, lét hafa eftir sér að ef stjórnvöld í Kanada tæku ekki ruslið sitt til baka sæi hann sjálfur um að sigla með það yfir hafið og sturta því í hafið við Kanda. Hvort það hafi haft úrslitaáhrif skal ósagt látið en allavega á nú að skila hundurðum tonna af rusli.

Það má eflaust velta fyrir sér umhverfisáhrifum deilunnar í heild sinni. Plast, sem að miklu leyti er flutt inn til Kanada, Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu, er sent þaðan til endurvinnslu til Asíu. Nú, þegar ljóst þykir að plastið var ekki allt endurvinnanlegt, verður siglt með það frá meðal annars Filippseyjum og Malasíu aftur til baka, heimsálfa á milli. 
Stjórnvöld í Asíuríkjunum segja aðgerðirnar fyrst og fremst táknrænar.

Meiri umræða hefur verið um þessa aðferð við endurvinnslu undanfarið, sérstaklega eftir að Kínverjar bönnuðu í fyrra allan innflutning á plastúrgangi, þau framleiði nóg af honum sjálf. 

„Það er samt gott að hafa það hugfast að þegar við mengum í einum hluta af heiminum erum við að menga heiminn í heild sinni,“ segir Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu.