Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigketill Öræfajökuls dýpkaði um 2 til 3 metra

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Magnússon
Óvenjulegt er að sjá svo mikinn jarðhita í Öræfajökli og nú er, að sögn jarðeðlisfræðings. Heldur hefur hægt á atburðarásinni í jöklinum, samkvæmt mælingum úr lofti í dag. 

Breytingar í Öræfajökli eru hægar, jökullinn er svipaður og fyrir 14 dögum og það eru góðar fréttir, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Sigketillinn í jöklinum hefur þó dýpkað um tvo til þrjá metra. Greint var frá því í frétt í gær að sigketill jökulsins hefði víkkað á rúmum þremur vikum og að sprungumynstur væri orðið greinilegra. Þá hafði lögun hans breyst úr því að vera hringlótt í að verða ílöng.

Flogið var yfir jökulinn í dag á vél Isavia, TF-FMS, og yfirborð hans mælt. Niðurstöðurnar sýna að jarðhiti fer dvínandi eða er veikari en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna. „Bráðnunin síðustu vikur hefur verið svipuð og í sumum sigkötlum í Bárðarbungu,“ segir Magnús Tumi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Er hægt að tengja niðurstöðurnar í dag við minnkandi líkur á eldgosi?

„Ég myndi ekki tengja þetta við líkur á gosi. Það eru breytingar á jarðhitakerfinu sem við erum að horfa á þarna. Ef við ætlum að meta langtíma líkur á gosi verðum við að horfa meira á hvernig jarðskjálftavirkni þróast og hvort það séu vísbendingar um kvikuinnskot eða að kvika sé að troða sér inn í rætur fjallsins. Eins og þetta horfir núna við er þessi jarðhiti annað hvort í dvínun eða hefur komið upp fyrr en vart varð við hann og hefur safnast fyrir í dálítinn tíma áður en vatnið lak úr.“

Hann segir samt sem áður óvenjulegt að sjá svo mikinn jarðhita í Öræfajökli. „Það þarf að fylgjast með þessu áfram. Það er ljóst að við erum ekki að sjá aukningu í atburðarásinni, heldur er að hægja á.“