Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sigkatlarnir í Bárðarbungu stækkað nokkuð

08.07.2019 - 19:34
Mynd: Katla Líndal / Katla Líndal
Sigkatlarnir í Bárðarbungu í Vatnajökli hafa stækkað töluvert frá því byrjað var að fylgjast með þeim. Jarðeðlisfræðingur segir ómögulegt að segja til um hversu lengi sú þróun heldur áfram. 

Á vorin eru gerðar íssjármælingar á sigkötlum í brúnum Bárðarbungu til þess að fylgjast með hvort vatn safnist fyrir undir kötlunum eða inni í öskjunni sjálfri. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands segir þá hafa breyst nokkuð milli ára.

„Ef við berum saman árin 2018 og 2019 þá sjáum við að það er aðeins stærra opið. Það er núna vatnsborð og heilmikið vatn í botninum á katlinum. Dældin sem er utan um þennan djúpa lóðrétta ketil er töluvert stærri en hún var í fyrra. Hversu lengi mun þessi þróun halda áfram, það er ómögulegt að segja,“ segir Magnús Tumi. Katla Líndal tók myndskeiðin með fréttinni.

Magnús Tumi segir að vatnið í kötlunum frjósi aldrei vegna jarðhita. Það eru um 800 metrar á milli katlanna sem byrjuðu að myndast fyrir fjórum árum eftir að jarðhiti jókst í Bárðarbungu í Holuhraunsgosinu. Þá seig askja bungunnar um 65 metra og jökullinn fylgdi með. „Bárðarbunga hefur töluvert breytt um svip. Þarna var aldrei neitt í líkingu við þetta. Við erum að fylgjast með því hver staðan er á jarðhitanum, er einhvers staðar vatn að safnast fyrir. Ef svo er, hvert myndi það vatn hlaupa og hversu stór myndu þau hlaup vera,“ segir Magnús Tumi.

Í eystri sigkatlinum, sem er aðeins stærri, sést í hver. Frá honum leggur brennisteinslykt. Niður í bergið eru rúmir 100 metrar. „Það er komið gat í gegn alveg niður í klettana sem eru þarna undir, sem enginn maður hefur séð og er búið að vera undir jökli sennilega í þúsundir ára.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV