Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sígilt handrit á torgi hins himneska friðar

Mynd: EPA / EFE / HOW HWEE YOUNG / EPA

Sígilt handrit á torgi hins himneska friðar

06.10.2019 - 09:40

Höfundar

„Fyrir almenning er þetta meiri ferðahátíð en fyrir stjórnvöld er þetta hátíð til að sýna mátt sinn og megin,“ segir Hafliði Sævarsson, verkefnastjóri á skrifstofu alþjóðlegra samskipta og stundakennari í kínverskum fræðum við HÍ, um 70 ára afmælishátíð Alþýðulýðveldisins Kína sem fram fór 1. október.

Meira en hundrað þúsund manns tóku þátt í hersýningu og veglegri skrúðgöngu í Peking í tilefni dagsins, á breiðgötunni við Torg hins himneska friðar, einmitt þar sem Mao Tse-tung lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína 1. október 1949.

Beðin voru full af litríkum blómum. Þyrlur mynduðu tölurnar 7 og 0 þegar þær flugu yfir, herþotur skyldu eftir sig reykjarmökk í regnbogalitunum, þúsundir prúðbúinna hermanna marseruðu í takt og með vel æfðum hreyfingum sveifluðu þeir rifflum með byssustingjum fram og til baka.

Á hverju ári er þjóðhátíðardagurinn haldin hátíðlegur en stór skrúðganga er á fimm ára fresti og sérstaklega vegleg hátíð á tíu ára fresti. „Það sem er áhugavert við þessa skrúðgöngu er að forsetinn er settur í svolítið mikið aðalhlutverk. hann keyrir um á forsetabíl, stendur upp úr sóllúgunni með hátalara fyrir framan sig. Ég held að það sé bara gert á tíu ára fresti svo það er öllu til tjaldað,“ segir Hafliði.

Hafliði gefur ekki mikið fyrir að hátíðin hafi verið mikið íburðarmeiri en áður, þó hún hafi vissulega verið nokkuð þungvopnaðri með langdrægum eldflaugum og öðrum hátæknivopnum. „Þetta er sígilt handrit,“ segir hann og bendir á að lítillátari forverar Xi Jinping hafi brugðið sér í sama hlutverk, klætt sig í Maó-jakka, staðið upp í opinni limósínu og kallast á við hermenn sem standa heiðursvörð meðfram breiðgötunni.

Að lokinni hersýningunni gengu almennir borgarar við hlið skreyttra skrúðvagna sem skörtuðu táknmyndum hinna ýmsu afreka síðustu sjö áratuga, tiltekinna héraða og metnaðarmála Kínverja. Risamyndir af Maó Tse-tung og núverandi formanni voru áberandi. Rauður fáni alþýðulýðveldisins blakti við hún. Allt var þetta ofurhannað. Hátíðin var bara opin boðgestum en þó sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Í ræðu sinni lagði Xi Jinping áherslu á styrk alþýðulýðveldisins og mikilvægi einingar innan Kína. Á sama tíma var óeiningin innan sjálfsstjórnarhéraðsins Hong Kong augljós, þar voru hörð mótmæli í tilefni dagsins.