Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sífellt fleiri grænkerar

Mynd: Pixabay / Pixabay

Sífellt fleiri grænkerar

31.10.2018 - 16:11

Höfundar

Guðrún Ósk Maríasdóttir matvælafræðingur og Guðrún Sóley Gestsdóttir dagskrárgerðarkona á RÚV og höfundur bókarinnar Grænkerakrásir svöruðu algengum spurningum í Mannlega þættinum um veganmataræði en fjölmargar ranghugmyndir virðast vera á flugi um þennan lífstíl.

Veganismi eða veganmataræði höfðar nú til sífellt fleiri landsmanna og framboð slíkra matvæla hefur sem betur fer farið batnandi. Þeir sem eru vegan neyta engra dýraafurða og upp koma spurningar um hvað leynist í þessum helstu veganafurðum. Hvað er til dæmis úmf og veganostur? „Úmf er sojakjöt. Sojabaunir eru aðalhráefni í úmfi og það eru til allmargar tegundir af því, ýmsar bragðtegundir, barbeque, jurtakrydd og ýmislegt fleira. Það er misjafnt hversu hollt sjálft úmfið er,“ segir Guðrún Ósk. Önnur afurð er seitan sem búið er til úr glúteni. Glútenið kemur úr hveiti og þá er hveitiprótínið tekið frá og gert að einhvers konar kjötlíki. Svo eru til margar tegundir af veganosti, til dæmis úr kókosolíu, einhverjir úr sojaafurðum og aðrir úr kasjúhnetum. Það eru því nánast endalausir möguleikar í þessum efnum,“ segir matvælafræðingurinn Guðrún Ósk.

Ein af ástæðum þess að fólk gerist vegan er umhverfisvernd en er framleiðsla á veganmatvælum umhverfisvæn að öllu leyti? „Flestir matvælaframleiðendur sem einbeita sér að veganafurðum eru mjög meðvitaðir um umhverfisverndarsjónarmið í sinni framleiðslu og ég þori að fullyrða að framleiðsla á veganmat er öll minna skaðleg fyrir umhverfið heldur en kjötframleiðsla. Það er rosalega orkufrek framleiðsla sem krefst mikilla auðlinda, eins og vatns. Flestir þeir sem framleiða veganmatvöru eru meðvitaðir um þetta og reyna að lágmarka öll umhverfisspjöll. Neytendur eru nefnilega að vera enn meðvitaðri um þetta og kjósa frekar að kaupa álíka matvæli,“ segir Guðrún Sóley.

Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar.
 Mynd: Guðrún Sóley
Matreiðslubók Guðrúnar Sóleyjar kallast Grænkerakrásir og inniheldur að hennar sögn krassandi veganuppskriftir.

Margir hafa sterkar skoðanir á veganisma, kannski án þess að þekkja of mikið til og þar koma upp algengar spurningar um hvort nægt prótín sé í veganmatvælum. Guðrún Ósk segir þetta mikið tilfinningamál. „Við höfum auðvitað alist upp við að það sé í lagi að borða kjöt og þegar maður finnur það hjá sér að það sé ekki í lagi fyrir þig sjálfan þá er það óneitanlega sérstök tilfinning að hafa borðað önnur dýr áður. Ég sem íþróttamanneskja er mjög meðvituð um hvað ég borða og það er sérkennileg ranghugmynd hjá fólki að veganfólk fái ekki nægt prótín, þegar flestir gera sér ekki grein fyrir því hvað það borðar sjálft.“

Guðrún Sóley er sammála. „Þetta er seig mýta með prótínið vegna þess að við borðum allflest svo prótínríka fæðu. Það eru til dæmis mikið af baunaafurðum í veganmatvælum og baunir eru eiginlega bara hreint prótín. Það eru rosalega margir prótíngjafar í helstu grænmetisfæði, þannig að það er litlar áhyggjur af þessu að hafa. Við erum einnig komin með svo flottar fyrirmyndir hér á Íslandi, hvað svona afreksíþróttafólk snertir, sem afsannar þær hugmyndir um að veganfólk sé allt að hníga niður af prótínskorti eða það vanti næringarefni eða vítamín.“

Á þessum nótum er væntanleg ný matreiðslubók frá Guðrún Sóleyju og engir lesendur munu þurfa að hníga niður af þróttleysi. „Ég er ægilegur sælkeri sjálf, ég vil hafa allt svolítið brasað og sveitt og safaríkt,“ segir Guðrún Sóley og lofar góðu. „Mér hefur fundist ég heyra þær hugmyndir að veganismi og mataræði sé meinlætamatur, hálfgert megrunarfæði og nánast tærar grænmetissúpur og kássa. Mig langaði að vekja athygli fólks á að svo væri nú alls ekki. Þetta er svo fjölbreytt mataræði og það hefur opnast fyrir mér heill heimur af alls konar nýju bragði, samsetningum og hráefnum. Ég hef nú sett saman allar mínar uppáhaldsuppskriftir í eina bók, þetta eru pizzur, lasanja, taco, bao bun, alls konar sósur, avókadófranskar, sem sagt allt milli himins og jarðar en eina skilyrðið var að þetta væri gott á bragðið, sveitt og djúsí, mettandi og spæsí,“ bætir Guðrún Sóley við.