Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðustu sprengingar Dýrafjarðarganga

12.04.2019 - 20:16
Sprengivinna í Dýrafjarðargöngum er á lokametrunum. Síðasta færa verktakanna hjá Metrostav var í kvöld en þótt gat hafi myndast þá á formlegt gegnumslag ekki að vera fyrr en á miðvikudaginn í næstu viku.

Verktakar héldu upp á áfangann í kvöld og spreyjuðu mynd á vegginn fyrir síðustu færuna. 

Verkið hefur gengið vel í Dýrafirði, eins og í Arnarfirði, og Baldvin Jónbjarnarson, eftirlitsmaður við Dýrafjarðargöng, segir að miðað við upphaflegt plan þá sé sprengingunum að ljúka rúmum tveimur mánuðum á undan áætlun. Framundan sé þó mikil vinna en göngin eiga að opna haustið 2020. 

Þeim Antoni og Brynjari Proppé Hjaltasonum, frá Þingeyri, líst vel á framvinduna í göngunum en þeir voru í hópi skólabarna frá Þingeyri sem hóf gröft Dýrafjarðarganga fyrir níu árum. Þeir voru reyndar ekki jafnvel tækjum búnir og verktakafyrirtækin Suðurverk og Metrostav.

Dýrafjarðargöng eru 5,3 kílómetra löng, 5,6 með vegskálum, og er áætlað að þau verði opnuð fyrir umferð haustið 2020.