Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Siðferðisspurningar vakna með aukinni tækni“

16.08.2017 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erfitt er að gagnrýna móður sem ákveður að eyða fóstri með Downsheilkenni á sama tíma og við viljum að konan hafi rétt til að ákveða sjálf hvort hún fari í fóstureyðingu, segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Ýmsar siðferðisspurningar hljóti þó að vakna þegar tæknin geri kleift að skima fyrir mun meiru en nú er hægt.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS fjallaði í fyrrakvöld um Downs-heilkennið á Íslandi og þar kom fram að sárafá börn fæðast með það hér á landi þar sem prófað er fyrir litningagalla sem veldur því. Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa Íslendinga eru Ted Cruz þingmaður Repúblíkana og Sarah Palin fyrrverandi ríkisstjóri í Alaska.

Kári sagði í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun að umræðan ætti sér margar hliðar en sú sem bandarísku stjórnmálamennirnir væru að ræða um væri einfaldlega rétturinn til fóstureyðinga. „Ef við föllumst á að konan hafi rétt til þess að láta eyða fóstri og lítum svo á að það sé í lagi, er enginn möguleiki í sjálfu sér að gagnrýna að kona sem gangi með fóstur með Downs-heilkennið ákveði að láta eyða því.“ Kári telur að ástæðan fyrir því að hærra hlutfalli slíkra fóstra sé eytt hér á landi en víðast hvar annars staðar sé einfaldlega að heilbrigðiskerfið hér nái til stórs hluta þjóðarinnar.

Hvenær á fóstur rétt til lífs?

Kári segir gagnrýni Söruh Palin og Teds Cruz sprottna af skoðun íhaldssamara manna um að allt líf frá getnaði sé heilagt. Hins vegar hafi vestrænt samfélag komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að eyða fóstri ef konan kjósi að gera það. Fóstur sem hafi ekki vitund eigi ekki skýlausan rétt til lífs. „Ég er sammála þeirri ákvörðun okkar samfélags en ég er á því að hún sé ekki léttvæg. Því að ef menn fara að velta fyrir sér hvenær fóstur á rétt til lífs er þetta orðið flókið. Er það eftir eina viku eða fimm vikur?“

Kári segir þessar deilur og ofstæki í umræðunni um hvort leyfa eigi fóstureyðingar dæmigerðar fyrir íhaldsöfl í bandarísku samfélagi. „Við eigum ekki að berja okkur á brjóst og gleðjast yfir því að Ted Cruz og Sarah Palin séu að veitast að íslensku samfélagi, en það liggur við.“

Kári bendir þó á að það vakni siðferðilegar spurningar þegar hægt verður að lesa sífellt meira í framtíð einstaklinga með því að skoða erfðamengi þeirra á fósturskeiði. „Þær siðferðisspurningar sem vakna verða mjög flóknar og að mörgu leyti óleysanlegar. Ef svo heldur fram sem horfir komum við til með að geta spáð fyrir um svo margt með því að skoða niturbasa í erfðamengjum fólks. Og ég held að við verðum að fara mjög varlega í að nota þessar rannsóknir á fósturskeiði til að taka ákvarðanir.“