Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Siðferðilegur veganismi er lífsskoðun

04.01.2020 - 06:48
Jordi Casamitjana leaves an Employment Tribunal after it ruled that ethical veganism is a philosophical belief and is therefore protected by law, outside the court in Norwich, England, Friday Jan. 3, 2020. Casamitjana claims he was sacked by the League Against Cruel Sports after raising concerns that its pension fund was being invested into companies involved in animal testing. (Nick Ansell/PA via AP)
Jordi Casamitjana. Mynd: AP
Veganismi af siðferðilegum ástæðum er lífsskoðun og þar með lögverndaður samkvæmt breskum dómstól. Dómari kvað þetta upp í máli Jordi Casamitjana gegn League Against Cruel Sports, sem berst gegn misnotkun dýra.

Casamitjana segir samtökin hafa vikið honum úr starfi vegna þess að hann væri veganisti af siðferðilegum ástæðum. Samtökin segja hann hins vegar hafa verið rekinn fyrri gróft misferli.

Dómarinn sagði þá sem eru vegan af siðferðilegum ástæðum eiga að njóta sömu lögverndar gegn mismunun og trúaðir á breskum vinnustöðum. Dómarinn hefur þó ekki enn tekið afstöðu um hvort Casamitjana var rekinn á lögmætan hátt.

Casamitjana segist hafa verið rekinn eftir að hafa bent yfirmönnum sínum í samtökunum á að lífeyrissjóður starfsmanna þeirra hafi fjárfest í fyrirtækjum sem stundi tilraunir á dýrum. Hann segir yfirmennina hafa látið kvörtunina sem vind um eyru þjóta, og hafi svo rekið hann eftir að hann tjáði samstarfsmönnum sínum frá þessu.

League Against Cruel Sports sögðu rangt að tengja brottrekstur Casamitjana við veganisma. Samtökin rengi ekki úrskurð dómarans um að veganismi eigi að njóta sömu lögverndar og trúarbrögð. Trú og lífsskoðun eru meðal níu þátta sem lög um mismunun ná til í Bretlandi. Hinir þættirnir eru aldur, fötlun, kynleiðrétting, hjónaband og staðfest samvist, þungun og fæðing, litarhaft, kyn og kynhneigð.

Þeir sem eru vegan neyta ekki dýraafurða og nota ekki vörur sem eru með dýraafurðum. Sumir láta sér nægja að fylgja mataræðinu. Veganistar af siðferðilegum ástæðum reyna að komast að öllu leyti hjá því að skaða dýraríkið með líferni sínu. Til að mynda með því að forðast að klæðast eða kaupa föt sem eru búin til úr ull eða leðri, eða vörur frá fyrirtækjum sem gera tilraunir á dýrum. BBC hefur eftir Casamitjana að hann gangi frekar á milli staða frekar en að taka strætó til að forðast árekstra við skordýr eða fugla. Hann kvaðst verulega ánægður með úrskurð dómarans og vonast til þess að allir sem hafi stutt hann njóti góðs af úrskurðinum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV