Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Síðasta tillaga Bjarkar samþykkt

15.09.2015 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur, sem borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, var samþykkt á fundi borgarstjórnar í dag en þar er innkaupadeild Reykjavíkurborgar falið að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum meðan á hernámi Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna stendur.

Björk greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild að undirbúa og útf...

Posted by Björk Vilhelmsdóttir on 15. september 2015

Björk greindi frá því í viðtali við Fréttablaðið á föstudaginn að hún ætlaði að biðjast lausnar á borgarstjórnarfundinum í dag.  Hennar fyrst verk verður að fara sem sjálfboðaliði til Palestínu þar sem hún ætlar að vera fram yfir áramótin.

Það kom því ekkert sérstaklega á óvart að síðasta tillaga hennar sem borgarfulltrúi yrði undirbúningur viðskiptabanns Reykjavíkurborgar við Ísrael. Björk sagði í samtali við fréttastofu að þessi tillaga hefði verið rædd lengi og það væri einhugur í meirihlutanum um þetta. „Það eru fleiri borgir sem eru að gera þetta, nú síðast Kaupmannahöfn. Þetta er gert til að þrýsta á ísraelsk yfirvöld um að láta af hernaðaraðgerðum sínum og fara að alþjóðalögum.“

Í tillögunni er lagt til að borgin samþykki að kaupa ekki vörur frá Ísrael á meðan hernámi landsins á landsvæði Palestínumanna varir. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með samþykkt tillögunnar styðji borgin rétt Palestínumanna til sjálfstæðis og fullvalda ríkis innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967. Slík sniðganga er í greinargerðinni sögð friðsamleg aðferð til að hafa áhrif á stjórnvöld og ráðahópa í ríkjum þar sem mannréttindi séu ekki virt og alþjóðasamþykktir að engu hafðar.