Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Seyðfirðingar borða saman í hádeginu

19.10.2019 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skólamötuneytið á Seyðisfirði hefur verið opnað öllum og nú geta allir bæjarbúar hist og borðað saman hollan og góðan mat í hádeginu á virkum dögum. Skólastjórinn segir of mikið gert af því að aðskilja fólkið í bænum.

Í Herðubreið á Seyðisfirði er nú eldað fyrir alla sem vilja koma þangað og kaupa sér mat í hádeginu. Áður var brytjað niður og mallað á mörgum stöðum í bænum en þarna er nú sameinað eldhús fyrir grunn- og leikskóla, LungA-skólann og veitingastaðinn Ölduna. „Í grunninn mega allir koma og við sjáum fyrir okkur að eldri borgarar hér á Seyðisfirði þeir eru sérstaklega velkomnir, nemendur í skólunum og aðrir sem vilja. Þetta er í raun og veru opið eldhús. Það fá auðvitað allir samveru og það er samvera kynslóðanna. Við höfum verið svolítið góð í því að setja veggi á milli kynslóðanna. En hérna viljum við alls ekki vera í því. Við viljum vera saman, það er skemmtilegra,“ segir Svandís Egilsdóttir, skólastjóri Seyðisfjarðarskóla.  

Þetta kemur reyndar til vegna veikinda matráðs skólans, en mögulega verður framhald á samfélagsmötuneytinu og þá yrði starfsemin boðin út. Garðar Þórðarson, matreiðslumaður á Hótel Öldunni, tók að sér eldamennsku. „Ég sem sagt var að fá ferskan þorsk og ég ætla að baka hann í ofni með vínberjum og brokkolí og smá sítrónu og hvítlauk. Svo erum við með kartöflur og gulrætur í ofni líka. Þetta er borið fram fyrir krakkana á eftir. Ég er búinn að vera hérna í þrjá daga og mér sýnist allir borða matinn. Þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu,“ segir Garðar en þegar hádegismatnum líkur snýr hann sér að eldamennsku fyrir veitingastaðinn sem er opinn á kvöldin.

„Þegar við tókum við Herðubreið sem var týpískt félags- og menningarheimili úti á landi, frekar dautt í rauninni, þá var ekki mikil starfsemi í gangi í húsinu. Þannig að þetta er búið að vera draumurinn síðan við tókum við þannig að við erum gríðarlega sáttar með allt þetta líf sem er komið inn í húsið,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, önnur forstöðumanna Herðubreiðar. 

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV