Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sextíu í sóttkví vegna óðs lestarfarþega

14.03.2020 - 03:18
Erlent · COVID-19 · Noregur · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Elin Helgheim - NRK
Fimmtíu farþegar lestar á leiðinni frá Ósló til Björgvinjar í Noregi í kvöld verða að fara í tveggja vikna sóttkví. Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá. Maður sem var um borð í lestinni með þeim gekk að öllum farþegum, andaði framan í þá og kvaðst smitaður af COVID-19. Auk farþeganna verða tíu til viðbótar að fara í sóttkví, það eru starfsmenn lestarstöðvarinnar í Ål og áhöfn lestarinnar.

Lögregla handtók manninn á lestarstöðinni í Ål í Hallingdal, um miðja vegu á milli Óslóar og Björgvinjar. Lögreglan greinir frá því á Twitter að maðurinn hafi brugðist ókvæða við og ráðist að lögreglunni með slökkvitæki sem var í lestinni.

Eftir að maðurinn var handtekinn hélt lestin áfram til Dale, skammt austur af Björgvin. Þar nam hún staðar í nokkurn tíma á meðan áhöfn lestarinnar ákvað framhaldið. Eftir samráð við héraðslækni í Björgvin, yfirvöld, bæjarstjóra og lögreglu, var lestinni leyft að halda áfram til Björgvinjar. Farþegar sem ætluðu að fara frá borði í Dale fengu að gera það, en verða að fara í tveggja vikna sóttkví. Ekki er ljóst hvort farþegarnir verða prófaðir við COVID-19. Fer það líklega að mestu leyti eftir því hvort hinn óprúttni farþegi hafi verið smitaður, eins og hann sagðist.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV