Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sex suðandi sumarsmellir síðustu ára

Mynd með færslu
 Mynd: unsplash - pexels

Sex suðandi sumarsmellir síðustu ára

25.06.2019 - 09:22

Höfundar

Nú þegar júlí er á næsta leiti má ætla að landsmenn fari á stúfana og elti sólina um allt land. Eins mikilvægt og það er að fara varlega í umferðinni þá er líka brýnt að hlusta á góða tónlist. Rás 2 verður á vaktinni og það verður forvitnilegt að sjá hvert verður vinsælasta lag sumarsins 2019.

Síðasta laugardag var nýjasti vinsældalisti Rásar 2 kynntur til sögunnar og mætti ætla að þar sé að finna teikn á lofti um hver vinsælustu lög þessa sumars verða. Á toppnum situr nú hljómsveitin Dikta úr Garðabæ með lagið Anniversary en þeir héldu upp á stór tímamót í sögu sveitarinnar með stórtónleikum í Hörpu á dögunum. Þá voru tuttugu ár síðan Dikta var stofnuð og tíu ár frá því að platan Get It Together kom út.

En hver voru vinsælustu sumarlög síðustu ára? Hér koma sex sumarsmellir síðustu ára á vinsældalista Rásar 2.

Mynd: RÚV / RÚV

Hjálmar - Hættur að anda (2018)

Í júlímánuði í fyrra ómaði á öldum ljósvakans nýtt lag frá hljómsveitinni Hjálmum. Þeir höfðu dælt út nokkrum sjálfstæðum reggíslögurum eins og þessum, sem áttu sér varla heimili fyrr en þeir gáfu út plötuna Allt er eitt núna í sumar. Hættur að anda sat á lista yfir sumarið og sat á toppnum í lok júlí. Þarna flytja Hjálmar lagið í Vikunni með Gísla Marteini síðasta haust.

Ragnhildur Gísladóttir - Sjáumst þar (2017)

Það er algengt að þjóðhátíðarlög Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum rati beint á vinsældalista Rásar 2 og á því var engin undantekning árið 2017 þegar einvala lið flutti lag Röggu Gísla, Sjáumst þar. Þetta var fyrsta þjóðhátíðarlagið sem samið var af konu. Sjáumst þar var á toppnum í enda júlí og áfram inn í ágústmánuð.

Retro Stefson - Skin (2016)

Það eru margir sem sjá eftir stuðsveitinni Retro Stefson en hún lagði upp laupana eftir tíu ára starfsævi árið 2016. Hljómsveitin kvaddi með því að gefa áhangendum sínum EP plötuna Scandinavian Pain að gjöf og þar var að finna þetta topplag sumarins 2016.

Glowie ft. Stony - No more (2015)

Sautján ára hársnyrtinemi úr Tækniskólanum, Sara Pétursdóttir, sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2014 og ári síðar var hún mætt með sinn fyrsta smell á topp vinsældalista Rásar 2. Sara, sem er betur þekkt sem Glowie, mun hita upp fyrir Ed Sheeran á Laugardalsvellinum í sumar og er greinilega rétt að byrja.

AmabAdamA - Hossa Hossa (2014)

Hljómsveitin Amabadama lét allt gossa, hristi bossa og kveikti í kroppum ástarblossa með laginu Hossa hossa um sumarið 2014. Það sungu allir með. Hljómsveitin gaf svo út plötuna Heyrðu mig nú síðar um haustið og innihélt hún enn fleiri smelli á borð við Gaia, Hermenn og Það sem þú gefur.

Áhöfnin á Húna - Sumardagur (2013)

Hópur tónlistarfólks sigldi í kringum landið á skipinu Húna II um sumarið 2013 og heimsótti nær hverja einustu höfn. Um borð voru Jónas Sig, Lára Rúnars og Mugison, ásamt þeim Ómari Guðjónssyni, Guðna Finnssyni og Arnari Gíslasyni og saman gerðu þau vinsælasta lag sumarsins 2013. 

Vinsældarlisti Rásar 2 er kynntur á hverjum laugardegi klukkan 16:05.