Sex plötur sem þú ættir að hlusta á í sóttkvínni

Mynd með færslu
 Mynd: - - Samsett mynd

Sex plötur sem þú ættir að hlusta á í sóttkvínni

26.03.2020 - 11:18

Höfundar

Við lifum á skrýtnum tímum, fordæmalausum jafnvel og við vitum ekki hvernig við eigum að snúa okkur. Eitt er þó víst að tónlistin heldur okkur gangandi og hér verður farið yfir nokkrar nýjar plötur sem ættu að létta ykkur lund.

GDRN

GDRN
Söngkonan GDRN skaust fram á sjónarsviðið fyrir tveimur árum þegar hún gaf út plötuna Hvað Ef og hefur síðan verið upptekin í tónlistinni, troðið upp á Þjóðhátíð og fengið ógrynni af verðlaunum. Í febrúar síðastliðnum gaf hún út aðra plötu sem aðdáendur höfðu beðið í ofvæni eftir. Seinni platan GDRN hefur að geyma nýjan hljóm, nostalgíu og meira fönk. Hún fær alls kyns tónlistarfólk með sér til að skreyta plötuna, Sigríði Thorlacius, Steingrím Teague, Birni og Matthildi. GDRN er mjög vel heppnuð plata og rökrétt skref fyrir þessa frábæru söngkonu eða eins doktorinn Arnar Eggert kemst vel að orði í gagnrýni sinni um plötuna: „GDRN tekur með þessari plötu hugrökk og í raun bráðnauðsynleg skref fram á við.”

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að spá í að senda skilaboð til fyrrverandi seint að kvöldi eða fá þér fyrsta kaffibollann á þessum skrýtnu tímum.


KHRUANGBIN & LEON BRIDGES

Texas Sun EP 

Þessi fjögurra laga þröngskífa kom til eftir að síkadelíufönksveitin Khruangbin fór á tónleikaferðalag með sálarsöngvaranum Leon Bridges, sem tjáði sveitinni að honum þætti gaman að syngja gömlu lögin þeirra  og lýsti yfir áhuga á að vinna með þeim. Úr varð þessi þröngskífa sem kom út þann 7. febrúar síðastliðinn. Platan er óður til heimabæjar þeirra allra, Houston, Texas eins og titillinn gefur til kynna. Þetta er grunsamlega þægilegt R&B í bland við sýrurokk og þrátt fyrir ólíkar áherslur í tónlist; Leon Brigdes með gamaldags sálarhljóð og Khruangbin heldur tilraunakenndara, þá virðist sem svo að þau séu sérsniðin fyrir hvort annað. Fyrir áhugasama, þá er Khruangbin tælenska og beinþýðist í fljúgandi vél.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að kemba köttinn í fjórða sinn yfir daginn eða liggur úti í garði að hugsa þinn gang.  


ÁSGEIR

Sátt

Ásgeir, sem eitt sinn kallaði sig fullu nafni Ásgeir Trausta, stimplaði sig inní tónlistarsál þjóðarinnar árið 2013 þegar hann gaf út plötuna Dýrð í dauðaþögn. Þessi þjóðlegi folk-poppari hefur gert það gott síðan og gaf út sína þriðju plötu snemma í febrúar. Ásgeir hélt í sjálfsskipaða útlegð í bústað á Laugarvatni til að fá næði til að vinna að plötunni. „Mig langaði að fara eitthvert burt og fókusa alfarið á þetta svo ég var einn í tæpan mánuð,“ segir hann. Hann áttaði sig fljótt á að hann vildi fara aftur í upprunann á nýju plötunni, taka upp kassagítar og fikra sig frá elektóráhrifunum sem hægt var að greina í síðustu plötu. Að sögn Ásgeirs fann hann „ fyrir meiri sátt við allt við gerð plötunnar, bæði við sjálfan mig og lífið allt.“ Platan er fáanleg bæði á íslensku og ensku en enska útgáfa plötunnar ber titilinn Bury The Moon.

Þetta er platan sem þú hlustar á í sumarbústaðaflóttanum eða þegar þú ert að renna yfir gömul myndaalbúm í geymslutiltektinni. 


TAME IMPALA

The Slow Rush

Ástralinn Kevin Parker hefur fullorðnast síðan hann gaf út plötuna Currents fyrir fimm árum og þessi nýja plata ber þess merki, en platan The Slow Rush miðlar visku sem lærst hefur á þessum tíma. Kevin Parker er maðurinn á bakvið sveitina, þar sem hann er í senn söngvari, hjóðfæraleikari, upptökustjóri og lagahöfundur hennar. Platan, sem kom út á valentínusardaginn síðastliðinn, fjallar í grunninn um að eldast á þokkafullan hátt og fer hann um víðan völl tónlistarlega. Segja mætti að Slow Rush væri einskonar kort af ýmsum tónlistaráhrifum sem hann hefur orðið fyrir, þar sem hann blandar saman allt frá hipp-hoppi til hústónlistar að sjöunda áratugs fönki sem saman verður að þessu þekkta ofskynjunarpoppi hans. 

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að þykjast að gera heimaæfingar á IKEA-teppinu inni í stofu eða endurraða í kryddskápinn í þriðja sinn.


MAC MILLER

Circles

Rapparinn sálugi Mac Miller fannst látinn á heimili sínu þann 7. september árið 2018, aðeins 26 ára gamall en hann lést af völdum banvænnar blöndu áfengis og lyfja. Mac Miller gaf alls út fimm breiðskífur á ferlinum, en þessi sjötta plata hans Circles kom út tveimur árum eftir andlát hans, þann 17. janúar síðastliðinn. Plata þessi kom mörgum á óvart en fékk mikið lof enda var hann afkastamikill tónlistarmaður sem átti aðdáendur útum allan heim. Hann hafði verið að vinna að henni áður en hann féll frá og vinir hans og aðstandendur ákváðu að gefa hana út. Textarnir eru einhvers kona blanda af depurð og loforðum Millers um þrautseigju sem hann ætlaði að fylgja eftir. En gagnrýnendur lofa plötuna fyrir fjölbreytileika og vilja meina að hún undirstriki að hve miklu leyti rapparanum og jafnframt söngvaranum Miller tækist vel til að blanda saman tegundum, hún sýni vott af emo-rokki, lo-fi, indítónlist og rappi í senn. 

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að skrolla í gegnum Instagram eða ferð í ógeðslega langt og þarft bað. 


CHRISTINE AND THE QUEENS

La Vita Nuova 
Héloïse Adelaïde Letissier, eða einfaldlega Chris, er konan á bakvið Christine And The Queens. Þessi franska söngkona og lagahöfundur á að baki tvær breiðskífur, hún hefur vakið athygli fyrir að afbaka hugtakið kyn og fyrir að gera svokallað gratt e. horny popp. Platan La Vita Nuova er ekki breiðskífa, aðeins sex laga gripur en samt tekst henni að pakka saman meiri tilfinningum og laglínum en mörgum öðrum tekst á plötum í fullri lengd. Frábært samansafn synþadrifinna popplaga í bland við angurværar ballöður, með textum sem hún syngur ýmist á ensku eða á móðurmálinu, frönsku. 

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að undirbúa eins manns partý, af því það má enginn koma, en þú ert í þrumustuði.

Tengdar fréttir

Popptónlist

DGNÐR, elja og þolgæði

Popptónlist

Hann er kominn heim