Sex líkamsárásir á nýársnótt ― ein alvarleg

01.01.2020 - 19:37
Mynd: Bragi Valdimarsson / RÚV
Tilkynnt var um sex líkamsárásir í Reykjavík og á Akureyri í nótt, ein alvarleg. Ferðamenn hópuðust á brennur og heilluðust af ljósadýrðinni. Annríki var hjá lögreglu og slökkviliði í nótt. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í hundrað tuttugu og tvö útköll í nótt. Fimm voru handteknir í borginni grunaðir um líkamsárás, ein þeirra var alvarleg og var sá grunaði handtekinn á vettvangi. Lögregla vildi ekki gefa frekari upplýsingar um árásina. Þá var tilkynnt um líkamsárás á Akureyri, sá grunaði var látinn laus að lokinni skýrslutöku. Ekki fengust upplýsingar um líðan þeirra sem urðu fyrir árásunum.

Þá sinnti lögreglan þrettán útköllum vegna flugelda um allt höfuðborgarsvæðið ásamt slökkviliðinu sem var kallað út rúmlega tuttugu sinnum í nótt og morgun. Öll tilfelli voru minni háttar. Engin slys á fólki og vel gekk að slökkva eldana. Þá sinnti slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu um fimmtíu sjúkraflutningum. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni hafa hvorki borist tilkynningar um alvarleg slys né flugeldaslys. 

Fjölmenni var við áramótabrennu við Fífuna í Kópavogi. Rúmlega þúsund ferðamenn mættu þangað á vegum ferðaþjónustufyrirtækja á um tuttugu rútum. Þeir greiddu þóknun fyrir farið og kleinukaffi á eftir. „Það er gaman að upplifa hefðir annarra,“ segir Claire frá Bretlandi sem var viðstödd brennuna við Fífuna í gærkvöld.

Þá er brennan er ómissandi hluti af áramótunum fyrir marga heimamenn. „Það er alltaf stemning hérna sama hvaða veður er. Svo bíðum við bara eftir flugeldaveislunni,“ sagði Arnar sem fór með syni sína á brennu í gærkvöld.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV