
Mostefai, sem var 29 ára, var á sakaskrá og vitað var að hann hafði hneigst til öfgatrúar fyrir nokkrum árum, en ekki að hann hefði tengst hryðjuverkastarfsemi á nokkurn hátt.
Fullyrt var á forsíðu NRK í gær og vitnað í frönsku útvarpsstöðina Europe 1 að árásarmennirnir hefðu verið á aldrinum 15 til 18 ára. Var það haft eftir réttarlæknum. Áður hafði verið gefið út að ekkert yrði formlega látið upp um árásarmennina fyrr en á blaðamannafundi yfirvalda. Miðað við aldur Mostefais virðist því sem fregnirnar frá í gær hafi verið rangar.
Lögregla hefur ekki borið kennsl á aðra árásarmenn, en grísk yfirvöld hafa sent afrit af fingraförum eiganda sýrlensks vegabréfs sem fannst nærri líki eins árásarmanna í París í fyrrakvöld. Eigandi vegabréfsins kom í hópi flóttamanna frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Leros 5. október.
Lögregla í Belgíu handtók í gær þrjá menn grunaða um tengsl við hryðjuverkin. Þeir náðust þegar þeir voru á leið yfir landamærin frá Frakklandi. Einn þeirra hafði leigt svartan bíl sem fannst fyrir utan Bataclan tónleikastaðinn. Rannsakendur telja hugsanlegt að þeir hafi tekið þátt í árásunum en náð að flýja af vettvangi.
Lögregla segir að árásarmennirnir í fyrrakvöld hafi virst agaðir og vel þjálfaðir og verið sé að kanna hvort þeira hafi barist með vígasveitum herskárra íslamista í Írak eða Sýrlandi.