Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sex handteknir í Frakklandi

15.11.2015 - 08:48
epa05026094 A border control police stang guard at the border between France and Germany in Strasbourg,  France, late 14 November 2015. After the attacks that left more than 120 people killed in Paris on 13 November, the border controls in all over France
 Mynd: EPA - DPA
Lögreglan í Frakklandi hefur handtekið sex ættingja Omars Ismail Mostefai, eins mannanna sem skaut nærri 90 til bana á tónleikastaðnum Bataclan í París í fyrrakvöld. Þeirra á meðal er faðir hans, bróðir og mágkona. Fréttastofan AFP hefur þetta eftir heimildarmönnum innan lögreglu.

Mostefai, sem var 29 ára, var á sakaskrá og vitað var að hann hafði hneigst til öfgatrúar fyrir nokkrum árum, en ekki að hann hefði tengst hryðjuverkastarfsemi á nokkurn hátt.

Fullyrt var á forsíðu NRK í gær og vitnað í frönsku útvarpsstöðina Europe 1 að árásarmennirnir hefðu verið á aldrinum 15 til 18 ára. Var það haft eftir réttarlæknum. Áður hafði verið gefið út að ekkert yrði formlega látið upp um árásarmennina fyrr en á blaðamannafundi yfirvalda. Miðað við aldur Mostefais virðist því sem fregnirnar frá í gær hafi verið rangar.

Lögregla hefur ekki borið kennsl á aðra árásarmenn, en grísk yfirvöld hafa sent afrit af fingraförum eiganda sýrlensks vegabréfs sem fannst nærri líki eins árásarmanna í París í fyrrakvöld. Eigandi vegabréfsins kom í hópi flóttamanna frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Leros 5. október.

Lögregla í Belgíu handtók í gær þrjá menn grunaða um tengsl við hryðjuverkin. Þeir náðust þegar þeir voru á leið yfir landamærin frá Frakklandi. Einn þeirra hafði leigt svartan bíl sem fannst fyrir utan Bataclan tónleikastaðinn. Rannsakendur telja hugsanlegt að þeir hafi tekið þátt í árásunum en náð að flýja af vettvangi.

Lögregla segir að árásarmennirnir í fyrrakvöld hafi virst agaðir og vel þjálfaðir og verið sé að kanna hvort þeira hafi barist með vígasveitum herskárra íslamista í Írak eða Sýrlandi.