Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sex flugvélar frá áhættusvæðum lenda í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átta af 36 flugferðum sem voru á áætlun til lands í dag hefur verið aflýst. Sex flugvélar koma til landsins í dag frá Spáni, Þýskalandi og Frakklandi. Íslenskir farþegar þessara véla þurfa að fara í hálfs mánaðar sóttkví. 

Átta af 36 flugferðum, sem væntanlegar voru til landsins í dag, hefur verið aflýst. Icelandair aflýsti þessum flugferðum og eru þær frá London Gatwick, Stokkhólmi, Osló, Helsinki, Zürich og Minneapolis. Icelandair flýgur þó frá öllum þessum áfangastöðum í dag nema þeim tveimur síðastnefndu. Icelandair hefur aflýst tíu flugferðum úr landi í dag. Það er flug til Orlando, Denver, Kaupmannahafnar, London Gatwick, Stokkhólms, Parísar, Helsinki og Zürich .

Wizz air aflýsir nær öllu flugi á morgun 

Á morgun hefur Icelandair aflýst einni af fjórum flugferðum hingað frá Kaupmannahöfn. Wizz air hefur aflýst flugi frá Varsjá, Kraká, Wroclaw, Vilnius og Katowice og sömuleiðis til baka. 

Icelandair sendi farþegum upplýsingar í gær

Íslenskir farþegar sem koma með flugi frá Þýskalandi, Frakklandi og Spáni og Ölpunum í dag þurfa að fara í 14 daga sóttkví eins og ákveðið var í gær. Nokkur flug, sem falla undir þetta, eru væntanlega í dag. Það er flug frá Tenerife, Frankfurt, Hamborg, París, Berlín og München.  Icelandair sendi öllum farþegum sínum tilkynningu um þetta í gær. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV