Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sex féllu í mótmælum í Níkaragva á laugardag

03.06.2018 - 07:31
epa06781638 A man is treated by medical personnel after being wounded by a shotgun in a confrontation with the National Police during the 46th day of protests against the government of Daniel Ortega, in the city of Masaya, Nicaragua, 02 June 2018. The
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst sex manneskjur týndu lífinu í mótmælum í Níkaragva í gær. Fimm létust þegar óeirðalögregla réðist af hörku gegn mótmælendum í borginni Masaya. Mannréttindasamtök í Níkaragva greina frá því að 15 ára unglingspiltur sé á meðal hinna föllnu, og einn lögreglumaður. Fjölmargir borgarbúar komu sér upp heimagerðum víggirðingum og götuvirkjum, að eigin sögn til að verjast lögreglu og vopnuðum hópum úr stuðningsliði forsetans, Daníels Ortega.

Silvio Baez, biskup kaþólsku kirkjunnar í höfuðborginni Managva, hvatti íbúa Masaya til að halda sig innandyra og varaði fólk við leyniskyttum. Lögregla vildi kenna þungvopnuðum glæpagengjum um ofbeldið og sögðu þau fremja hryðjuverk á götum Masaya.

Sjötta fórnarlamb gærdagsins var Bandaríkjamaður á fimmtugsaldri, sem skotinn var til bana í Managva. Mannréttindasamtök segja að skotið hafi komið frá hópi ofbeldisfullra stuðningsmanna stjórnvalda, en lögregla fullyrðir að mótmælendur úr röðum stjórnarandstæðinga hafi verið að verki.

Sextán voru vegin þegar til harðra mótmæla kom í Níkaragva á miðvikudag og í allt hafa á annað hundrað manns látið lífið síðan nýjasta mótmælaaldan gegn stjórn Ortegas tók að rísa í apríl.