Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Setti það sem skilyrði að fá að hitta Björk

07.10.2018 - 08:00
Mynd: Arnar Þórisson / RÚV
Eva Joly, sérfræðingur í rannsóknum fjármálaglæpa og þingmaður á Evrópuþinginu, setti það sem skilyrði þegar hún kom í sína fyrstu heimsókn til Íslands í tengslum við efnahagshrunið, að hún fengi að hitta Björk Guðmundsdóttur. Þetta upplýsir hún í viðtali við fréttaskýringaþáttinn Kveik.

Joly átti að koma til Íslands um helgina en varð að afboða sig vegna ófyrirséðra aðstæðna.  Hún var sérstakur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar eftir hrun og var embætti sérstaks saksóknara innan handar. Hún lét af störfum í október 2010 þegar hún ákvað að bjóða sig fram í forsetakosningunum í Frakklandi. 

Lára Ómarsdóttir ræddi við Joly fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik en þátturinn verður sýndur á þriðjudag. Þar segir hún aðdragandann að Íslandsheimsókninni á sínum tíma hafa verið mjög fyndinn og óvenjulegan: „Egill Helgason hafði samband við mig og  vildi að ég kæmi til að tala um bankahrunið og spillingu. Ég féllst á það með því skilyrði að hann gæti komið á fundi með Björk sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hafði ekki mikinn tíma, það var mikið að gera hjá mér og Ísland var mér ekki efst í huga. Hann sagðist geta komið því í kring og ég fékk að hitta hana nokkru síðar.“

Í viðtalinu fer Joly yfir rannsókn hrunmála, hvað hefði mátt fara og hvort eitthvað hefði átt að skoða frekar. Þá talar um hún um Panamaskjölin og gagnrýnir að ekki hafi verið skoðað betur hver hagnaðist á markaðsmisnotkun innan bankanna. 

Í þættinum er einnig talað við Ólaf Þór Hauksson, sem var sérstakur saksóknari, Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi fyrrverandi Ríkisskattstjóra og Þórð Snæ Júlíusson, blaðamann. 

Mynd: Silfur Egils / RÚV
Eva Joly í Silfri Egils
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV