Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Setti ekki neina afarkosti í deilunni

18.02.2017 - 12:58
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræddi í ríkisstjórn í gær að hugsanlega kæmi til lagasetningar ef menn hefðu ekki náð saman. Hún segist þó ekki hafa sett samningsaðilum neina afarkosti í deilunni.

„Ég get alveg viðurkennt það að ég var tilbúin með lögin en þeim voru ekki settir neinir afarkostir. Þeir vissu það að ég var tilbúin með lagasetninguna og ég ræddi það sérstaklega í ríkisstjórn í gær að það myndi hugsanlega koma til þess ef menn myndu ekki ná saman í gær,“ sagði Þorgerður Katrín í Vikulokunum á Rás eitt í morgun. Hún hrósar útgerðinni fyrir að koma aftur inn í viðræðurnar með myndarlegum hætti. „Þetta eru líka mikilvæg skilaboð inn í komandi kjaraviðræður milli mjög erfiðra hópa. Ríkisvaldið mun ekki stíga inn í slíkar kjaradeilur.“ 

Sjómenn höfnuðu í gærkvöldi tillögu Þorgerðar Katrínar til lausnar deilunni. Hún segir að hluti af ástæðunni fyrir því væri sú að hún miðaði við þá sem væru lengi frá heimili, sem þýddi til dæmis að þeir sem væru á dagróðrabátum bæru ekkert úr býtum. „En ekki síður það að þetta mikilvæga skref sem útvegsmenn voru tilbúnir að gera í samvinnu við sjómenn og ríkisvaldið. Þegar menn sáu það þá bara fóru menn aðrar leiðir og nákvæmlega réttu leiðina. Menn leystu þetta sín á milli.“

Útgerðin kom til móts við sjómenn eftir að þeir mátu að tillögur ríkisins um aðkomu að deilunni gengju ekki nógu langt. Skrifað var undir nýjan samning á þriðja tímanum í nótt. Fæðiskostnaður sjómanna verður að fullu greiddur. Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, segir að öðruvísi hefðu samningarnir ekki náðst. Verkfall verður ekki blásið af fyrr en búið er að samþykkja samninginn, en atkvæðagreiðslu á að ljúka annað kvöld.
Verði samningurinn samþykktur fer flotinn út til veiða klukkan 20 annað kvöld.