Setjum pressu með ósveigjanlegum reglum

Mynd: - - / Creative Commons Creative Common

Setjum pressu með ósveigjanlegum reglum

08.10.2019 - 14:43
Ef þú getur ekki elskað sjálfan þig, hvernig í ósköpunum ætlar þú að elska einhvern annan? Hvernig metum við hvers virði við erum sem manneskjur og hvers vegna flækist sjálfsástin fyrir svona mörgum?

Hlaðvarpsserían Heilabrot er fylgisería sjónvarpsþáttanna Heilabrota í stjórn Steineyjar Skúladóttur og Sigurlaugar Söru Gunnarsdóttur. Í nýjasta þættinum fjölluðu þær um lágt sjálfsmat og ræddu við Baldur Hannesson, sálfræðing. 

„Sjálfsmat snýst um það hvers virði okkur finnst við vera,“ segir Baldur, „Viðhorfið sem myndast gagnvart sjálfum okkur,“ bætir hann við. Hann segir líka að það sé hægt að vera með mikið sjálfstraust en lágt sjálfsmat á sama tíma, maður geti treyst sér til að fara út í djúpu laugina þó manni finnist það kannski ekki merkilegt og tali sjálfan sig niður. 

Baldur segir hægt að rekja þetta til kjarnaviðhorfa einstaklinga, rótgróinna hugmynda um sjálfan sig og hver maður sé. „Það er auðvelt að dæma sjálfan sig ef maður er með ákveðnar hugmyndir um sjálfan sig,“ bætir hann við

„Við setjum svo mikla pressu á okkur með því að vera með svona ósveigjanlegar reglur. Maður fer að rífa sig niður og það getur leitt af sér depurð og þunglyndi.“

En hvernig lagar maður lágt sjálfsmat? Það getur verið erfitt. „Að breyta viðhorfi sínu til sjálfsins er flókið af því við höfum lært að horfa á okkur á ákveðinn hátt,“ segir Baldur. „Að breyta því þýðir að ég þurfi að horfa öðruvísi á mig.“ Þá segir hann mikilvægt að átta sig á því hvað valdi hverju, manni getur mistekist eitthvað af því maður var stressaður, ósofinn eða veikur, en ekki af því að maður er svo misheppnaður. „Við alhæfum oft út frá einhverjum einstaka atvikum yfir á svo margt annað.“

Þú getur hlustað á viðtalið við Baldur og þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er líka aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum, í spilaranum á ruv.is og í RÚV appinu. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Allir sem eiga mikinn pening geta fengið hjálp

Fóbía fyrir gubbi truflar framtíðar barneignir

Menningarefni

Sótti ekki bílinn í átta mánuði út af kvíða