Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Setja upp smáhýsi á iðnaðarlóð

14.11.2017 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Bæjaryfirvöld á Akureyri hyggjast setja upp smáhýsi fyrir heimilislausa á iðnaðarsvæði í bænum. Varaformaður velferðarráðs segir úrræðið tímabundið, í framhaldinu verði fundin varanleg búsetuúrræði fyrir heimilislausa á hentugri stað.

Á fundi velferðarráðs á dögunum var rætt um smáhýsaúrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda. Á síðasta fundi skipulagsráðs var samþykkt að úthluta lóð á Norðurtanga 7 undir slíkt húsnæði, tímabundið til tveggja ára. Jafnframt var ákveðið að hefja vinnu við að finna varanleg búsetuúrræði fyrir heimilislausa. Líkt og RÚV greindi frá í sumar eru engin sértæk búsetuúrræði fyrir heimilislausa á Akureyri, þrátt fyrir að þörf sé fyrir hendi. 

Staðsetning til bráðabirgða

Róbert Freyr Jónsson, varaformaður velferðarráðs, segir í samtali við fréttastofu að sett verði upp tvö smáhýsi á Norðurtanga. „Þetta er bráðabirgðastaðsetning, í mesta lagi tvö til þrjú ár, vegna þess að framtíðarplanið er að hafa þetta sem iðnaðarsvæði,“ segir Róbert. Á Norðurtanga, sem tilheyrir hafnarsvæði við nyrsta hluta Glerár, eru nokkur fyrirtæki og er svæðið fjarri íbúabyggð. 

„Þetta eru einstaklingar sem eru í raun á götunni og það finnst ekkert annað hentugt svæði á Akureyri,“ segir Róbert. Hann segir að fólkið sem um ræðir sé í neyslu og eigi við ýmis vandamál og þrífist því illa í fjölbýli. Hann áætlar að sex til átta manns séu heimilislausir á Akureyri, þó einhverjir búi hjá ættingjum og aðrir í bílum, og er til skoðunar hvort fleiri smáhýsum verði komið upp. 

Ekki æskilegt að jaðarsetja fólk í vanda

Skipulagsráð bókaði á fundinum að þetta væri neyðarúrræði. Aldrei væri æskilegt að jaðarsetja fólk sem stendur höllum fæti, það ýtti undir vanda þeirra. Tryggvi tekur undir þetta og segir brýnt að finna betri úrræði til framtíðar. Þó sé nauðsynlegt að geta aðstoðað þá sem væru annars á götunni. Staðsetningin sé í raun ekki slæm, þó vissulega þurfi að snyrta lóðina og þar í kring. „Þetta er eitthvað sem við verðum að hafa til reiðu, húsnæði sem stendur þeim til boða sem hafa ekkert annað,“ segir hann.