Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Setja þarf reglur um ferðir hvalaskoðunarbáta

06.08.2019 - 21:11
Mynd:  / 
Setja þarf reglur um ferðir hvalaskoðunarbáta nálægt grindhvölum að mati Eddu Elísabetar Magnúsdóttur líffræðings við Háskóla Íslands sem starfar við hvalarannsóknir. Hún telur þó langsótt að hvalaskoðun megi kenna um strand grindar í Garðskagafjöru.

Ekki vítaverð hegðun 

Fréttastofu barst myndskeið frá farþega í hvalaskoðunarbát sem sýnir minnst þrjá hvalaskoðunarbáta elta það sem talið er vera grindhvalavaða.

Edda Elísabet segir að ekki sé hægt að sjá vítaverða hegðun í myndskeiðinu þar sem bátarnir virðist fylgja reglum um hvernig skuli nálgast hvali. Þeir virðist vera í 100 metra fjarlægð frá vöðunni. Þó setur hún þann fyrirvara að það sé erfitt að meta fjarlægð á myndbandi. Það skipti hins vegar máli hversu lengi þeir eltu hvalina.

Þá setur Edda spurningamerki við að svo margir bátar elti hvalina. Það sé eitthvað sem þurfi að skoða. Hún ítrekar þó að ekki sé líklegt að rekja megi hvalrekann til þessa atburðar vegna þess hversu langur tími leið á milli. 

Virðast hafa fylgt reglum

Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur, segir að myndskeiðið komi henni ekki á óvart. Bátarnir hafi snúið aftur eftir skamma stund. Þeir hafi í raun verið að reka hvalina aftur út og það sé í samræmi við framkvæmd.  Atvikið veki spurningar um hvort skoða þurfi betur reglur um skoðun grindhvala. Þeir séu sjaldgæfir á grunnsævi. Hins vegar sjái hún ekkert athugavert við þetta einstaka atvik og þar virðist reglum hafa verið fylgt.