Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Sérstök tengsl sem við höfum ekki við neinn annan“

Mynd: RÚV / RÚV

„Sérstök tengsl sem við höfum ekki við neinn annan“

02.03.2020 - 15:13

Höfundar

Daði Freyr sem sigraði í Söngvakeppninni á laugardagskvöldið ásamt Gagnamagninu, og Árný Fjóla, sem er félagi í Gagnmagninu, eru par. „Ég vinn mest einn þannig séð, en það fer samt í gegnum hana,“ segir Daði Freyr í Hljómskálanum og Árný Fjóla tekur undir. „Ég er með puttana í öllu sem hann gerir,“ segir hún kotroskin.

Á síðustu plötu Daða Freys var þó eitt lag sem þau sömdu og fluttu saman. „Ég er svona nýbúin að finna sönginn hjá sjálfri mér, eða þora að hleypa honum eitthvað út fyrir sturtuna,“ segir hún. Daði Freyr segist ekki verða harður upptökustjóri í hljóðverinu, „en ég segi henni alveg hvað mér finnst og við tökum stundum upp aftur og aftur.“

Mynd: RÚV / RÚV
Daði Freyr og Árný Fjóla tóku lagið Ljúfa líf fyrir Hljómskálann.

Þau eiga sitt eigið útgáfufyrirtæki og eiga því réttinn á allri sinni tónlist sjálf. „Samlist ehf., alltaf saman,“ segja þau hlæjandi. Þau segja markmiðið með fyrirtækinu einfalt og felist í titlinum. „Gera list. Saman. Það væri líka gaman að vera heimsfræg fyrir utan Ísland. Stefnum á að fara með þetta lengra. Sjá þau einhverja augljósa kosti í að vinna tónlist með maka sínum? „Við erum náttúrulega með sérstök tengsl sem við höfum ekki við neinn annan,“ segir Daði Freyr. „Líka gott að vera alltaf á sama staðnum. Það þarf ekki mikla utanaðkomandi vinnslu, getum unnið fullunna vöru sjálf,“ segir Árný Fjóla. 

Í fjórða þætti Hljómskálans var rætt við músíkölsk pör úr íslenska tónlistarbransanum. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði og Gagnamagnið í efsta sæti hjá veðbönkum

Menningarefni

Daði Freyr bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni

Menningarefni

Daði Freyr og Dimma áfram í úrslitaeinvígið

Popptónlist

Daði og gagnamagnið með myndband