Sérstök göngudeild sem sinnir COVID-sjúklingum

21.03.2020 - 13:36
Birkiborg, Áland 6 breytt í göngudeild fyrir Landspítalann
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Landspítali hefur sett á laggirnar göngudeild til að sinna fólki sem hefur smitast af kórónuveiru. Fylgst er með líðan sjúklinga símleiðis og ef þeir þurfa sjúkrahúsvist er fyrst tekið á móti þeim í sérstökum gámum, svo að þeir séu aðskildir frá öðrum sjúklingum Landspítala.

Landspítali fékk í gær gefins fimmtán öndunarvélar, þar af þrjár gjörgæsluöndunarvélar. Von er á fimm slíkum vélum til viðbótar í næstu viku. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala segir miklu máli skipta að tryggja spítalanum tæki og búnað. „Eins og komið hefur fram þá eru öndunarvélar mjög mikilvægur síðasti varnargarður, þegar fólk verður mjög veikt af COVID-veiki,“ segir Páll. Fyrir átti Landspítali 26 vélar og hafði leitað leiða til að nálgast fleiri. Það hafi skilað sér í gær. „Það komu vélar til landsins frá Bandaríkjunum, gefnar af stórhug af Íslendingum, sem vilja ekki láta nafns síns getið.

50 manns sinna úthringingum og fer fjölgandi

Komið hefur verið upp göngudeild í Fossvogi sem sinnir eingöngu COVID-smituðum sjúklingum. „Fólk sem kennir sér meins eða er í sóttkví það á að leita í gegnum 1770 og til heilsugæslunnar, en þegar fólk hefur verið greint með COVID-sýkingu þá er það undir eftirliti Landspítala og okkar lækna og hjúkrunarfólks og við erum búin að byggja upp þessa göngudeild sem að heldur utan um þann fjölda sem er með COVID-sýkinguna,“ segir Páll.

Nú þegar eru 50 manns sem sinna úthringingum til þessa hóps. „Við erum með gríðarlega stórt teymi heilbigðisstarfsmanna sem er í úthringingum og eru að meta þessa einstaklinga frá degi til dags,“ segir Páll. „Ef að fólk þarf að koma þá er það samkvæmt ákvörðun þessarar göngudeildar. Það fólk kemur þá annars vegar í sérstaka gáma sem við höfum - þar sem er meðal annars röntgentæki - hér við Landspítalann í Fossvogi, og hins vegar erum við að setja upp hér á lóðinni stækkun á þessari göngudeild,“ segir Páll. Birkiborg, sem er skrifstofuhúsnæði Landspítala verður breytt í göngudeild.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi