Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sérkennilegt að hunsa áskorun 60 þúsund manna

07.02.2016 - 14:29
Mynd: RÚV / RÚV
Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, segir það mjög sérkennilegt að ekki sé hlustað á tæplega 60 þúsund manns sem skrifað hafa undir áskorun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfis þjóðarinnar.

Kári efndi til undirskriftasöfnunar á síðunni endurreisn.is þar sem skorað er á Alþingi að verja árlega 11 prósentum af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins.  

„Kári er metnaðarfullur maður og ég held að hann hafi sett sér há markmið,“ sagði Magnús Karl Magnússon í Helgarútgáfunni á Rás 2 í morgun. Það sé bara ein undirskriftasöfnun í sögu lýðveldisins sem sé fjölmennari. „Þannig að ég held að maður þurfi að nota mjög einbeittan vilja til að halda því fram þetta sé ekki að lýsa mjög eindregnum vilja íslensku þjóðarinnar. Að allt í einu að gera kröfu um það að  við þurfum umtalsvert meira heldur en nokkurn tíma áður hefur verið safnað áður en við hlustum á íslensku þjóðina,“ segir Magnús.  

Miða verði við heilbrigðiskerfin í nágrannalöndunum

„Mér finnst það mjög sérkennilegt að ekki sé hlustað á tæplega 60 þúsund manns sem hafa skrifað undir á örstuttum tíma.  Ég held að þeir sem voru með stór loforð fyrir síðustu kosningar þurfi að svara fyrir. Og þá er ekki nóg að segja að þú sért að verja fleiri krónum heldur en þú varðir fyrir nokkrum árum síðan. Þú verður að miða við nágrannalöndin og þú verður að miða við hlutfall af þeirri köku sem um er að ræða. Heilbrigðiskerfið er flóknara í dag en það var fyrir áratugum síðan en það gildir um allt annað í okkar samfélagi.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV