Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sérhæft teymi um hækkun í hafi

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Bresku Jómfrúreyjar þykja mikil paradís fyrir fólk og fé. Mynd: Denise - Flicker
Það er löngu orðið ljóst að aflandsvæðing og félög sem teygja sig til margra landa torvelda skattlagningu. Alþjóðlegt samstarf er mikilvægur hornsteinn í starfsemi skattyfirvalda en eitt öflugasta tækið er hollenskur gagnagrunnur sem skattyfirvöld víða um heim nýta sér. Sama mun brátt verða hjá embætti Ríkisskattstjóra þar sem nú er verið að setja upp teymi um milliverðlagningu, stundum kallað „hækkun í hafi“ og það teymi mun fá aðgang að þessum hollenska gagnagrunni.

 

ORBIS í dönsku skattamáli

Nýlega var kveðinn upp dómur í skattamáli í Danmörku sem snerist um verðmæti eignarhluta í félagi. Eigandi hlutanna hafði haldið því fram að eignarhlutinn væri virði 1,2 milljóna danskra króna. Skatturinn taldi hlutinn 150 milljón króna virði. Það bar því býsna mikið á milli. Dómurinn féll skattinum í hag, verðmat skattyfirvalda stæðist.
Í dómnum kom fram að skattyfirvöld hefðu sótt upplýsingar í hollenskan gagnagrunn, ORBIS, máli sínu til stuðnings. Fundu þar upplýsingar um hliðstæð fyrirtæki sem þau gátu notað í reikningsdæmið um verðmæti hlutanna. 

Hvað er ORBIS?

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig skattyfirvöld um allan heim nota þennan hollenska gagnagrunn. Og þá er spurningin: hvað er ORBIS? ORBIS er stærsti einkarekni fyrirtækjagrunnur í heimi. Eigandinn er hollenskt fyrirtæki, Bureau van Dijk, eða BvD, sem matsfyrirtækið Moody's keypti í sumar. 
Þarna er að finna upplýsingar um hátt í 250 milljónir fyrirtækja. BvD selur aðgang að grunninum sem bæði fyrirtæki og ríkisstofnanir um allan heim eru áskrifendur að. Háskólamenn geta ennig fengið að nýta grunninn til rannsókna. 

Í ORBIS er að finna upplýsingar um umsvif fyrirtækja, afkomu og rekstur, skráningarnúmer og aðrar opinberar upplýsingar en einnig upplýsingar um eignarhald og einstaklinga sem skipta mestu máli fyrir einstök fyrirtæki, bæði eigendur og stjórnendur. 

Samþætting og greining upplýsinga víða að

Það sem gerir grunninn svo öflugan er að þar má samlesa upplýsingar víða að, jafnt um fyrirtæki og einstaklinga. Þannig er til dæmis hægt að kalla fram upplýsingar um hluthafa einstakra fyrirtækja og aflandsfélög sem tengjast þeim. Upplýsingar sem sýna raunverulega eigendur, ekki bara aðkeypta skuggastjórnendur aflandsþjónustufyrirtækja. Þarna eru einnig upplýsingar um hvernig einstakar fyrirtækjasamstæður eru byggðar upp. 
Upplýsingar í grunninn koma í sífellu frá 160 sjálfstæðum upplýsingamiðlunum um allan heim. Þetta hljómar kannski eins og einhver hókus pókus. En eins og gildir um gagnagrunna almennt þá byggist ORBIS annars vegar á að safna upplýsingum og hins vegar á hugbúnaði til að vinna úr gögnum og greina þau.

Sérhæfður hugbúnaður til að kanna milliverðlagningu

Eitt sem BvD býður upp á er tæki til að kanna það sem á ensku heitir „transfer pricing,“ eða milliverðlagning, sem áður var oft kölluð „hækkun í hafi.“ Með þessu tóli er til dæmis hægt að greina hvernig fyrirtæki flytja hagnað úr háskattalandi í lágskattaland. Nokkuð sem skattyfirvöld víða um heim hafa lengi haft augun á og enn frekar undanfarin ár þegar almenn umræða hefur mjög beinst að þessum þáttum. 

Tæknilausnir til að kryfja stórfyrirtæki til mergjar

Skattamál alþjóðlegra stórfyrirtækja eins og Google, Amazon og Apple hafa verið sífellt fréttaefni undanfarin misseri. Það er meðal annars ljóst að í löndum eins og Bretlandi þar sem mikið af tekjum þessara fyrirtækja myndast er skattstofn þeirra samt örlítill því tekjurnar lenda í lágskattalöndum eins og Lúxemborg. Upplýsingalekar hafa svo enn frekar varpað ljósi á hvernig til dæmis Lúxemborg semur sérstaklega við stórfyrirtæki um lága sem enga skatta.

Á Íslandi hafa hliðstæð mál komið upp. Rýr skattstofn álfyrirtækjanna hefur til dæmis vakið athygli. Líkt og í hliðstæðum dæmum annars staðar í heiminum beinist athyglin að milliverðlagningu. Það er almennt viðamikið verkefni fyrir skattyfirvöld að gaumgæfa milliverðlagningu og nú hafa íslensk skattyfirvöld ákveðið að taka hana sérstaklega fyrir.

Að grafa skurð með vélskóflu og ekki teskeið

Í samtali við Spegilinn segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri að um þessar mundir sé embættið að setja á stofn teymi fjögurra sérfræðinga sem eingöngu sinni milliverðlagningu. Yfirmaður teymisins er Aðalsteinn Hákonarson endurskoðandi og allir í hópnum eru sérfræðingar um þetta efni.
Hið áhugaverða er að það er stefnt að því að þetta nýja teymi muni fá aðgang að ORBIS. Eins og einn viðmælandi Spegilsins sagði þá er ORBIS einmitt öflugt verkfæri, til dæmis í athugunum á milliverðlagningu. Í raun eins og að fá að grafa skurð með vélskóflu í stað teskeiðar. 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV