Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sér ekki fram á að geta keypt íbúð í bráð

19.02.2017 - 13:45
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég er ekkert að fara að sjá fram á að geta keypt íbúð á einhvern tímann á næstunni. Það er frekar ómögulegt að mínu mati,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, í Silfrinu í hádeginu. Þar var meðal annars rætt um fasteignamarkaðinn og erfiðleika yngri kynslóðarinnar við að festa kaup á íbúð.

Ásta Guðrún segir fólk af sinni kynslóð ekki setja fasteignakaup í sama forgang og fyrri kynslóðir. Þá telur hún takmörkun á aðgengi að húsnæði hér á landi ekki eingöngu leigufélögum að kenna. Skýringin sé frekar sú að eftirspurnin eftir húsnæði sé meiri en framboðið. Allt of lítið hafi verið byggt og það hækkar verð.   

Umræður um ummæli Ástu um fasteignakaup vöktu athygli á samskiptamiðlinum Twitter. Dagur Hjartarson rithöfundur velti fyrir sér hvernig gæti staðið á því að þingmaður með 1,5 milljónir króna í laun á mánuði gæti ekki keypt sér íbúð. Ásta svaraði Degi og sagðist hafa fengið 800 þúsund krónur útborgaðar um síðustu mánaðamót auk þess að vera nýkomin úr námi. Þau skiptust á nokkrum skilaboðum sem má skoða með því að smella á myndina hér fyrir neðan. 

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að á tíu ára tímabili hafi fjöldi Íslendinga á þrítugsaldri sem býr í foreldrahúsum farið úr 30 í 42 prósent. Ástæðan sé fyrst og síðast skortur á framboði á húsnæði. Ekki hafi verið byggt nógu mikið á árunum eftir hrun til að halda í við þróun á eftirspurn og aukinn fjölda ferðamanna. „Þetta hefur leitt til þess að húsnæðisverð hefur hækkað um 70 prósent hér á höfuðborgarsvæðinu frá lokum ársins 2010 til dagsins í dag. Þetta hefur ýkt erfiðleika þessa hóps alveg gríðarlega.“

Þórður segir einnig atvinnuvanda hér á landi. „Íslendingar eru að mennta sig í auknum mæli. Yfir 4000 manns að útskrifast hér úr háskólum á ári og við erum ekki að búa til störf fyrir þetta fólk. Flest störf á Íslandi sem eru að verða til tengjast ferðaþjónustu eða stoðgreinum sem krefjast ekki sérmenntunar og eru láglaunastörf. Menntun er ekki metin til launa hér á Íslandi, það sýna allar samanburðarkannanir.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV