Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sér eftir bátnum sem hefur reynst sem annað heimili

03.02.2020 - 19:53
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Útgerð og fiskvinnsla á Flateyri eru í lamasessi eftir snjóflóðin sem féllu um miðjan janúar. Sjómaður segir að hann hrylli við að fara um borð í bát sinn, eftir að hann hafði legið á kafi í höfninni í átján daga.

Eiður ÍS 126 sem var hífður síðastur upp úr höfninni á Flateyri er 40 tonna dragnótabátur. Hann var nýkominn úr slipp og tilbúinn til sjós þegar snjóflóðin féllu.

Þorgils Þorgilsson, útgerðarmaður og eigandi Eiðs, segir bátinn hafa reynst vel.

„Þetta var bæði góður sjóbátur og vel útbúinn á dragnótaveiðar. Það er mikið tilfinningatjón að missa þennan bát og horfa upp á þetta svona. Maður er búinn að sofa þarna og matast þarna. Þessi bátur er búinn að vera mitt annað heimili,“ segir Þorgils.

Þá er erfið tilhugsun að fara um borð í bátinn.

„Ég er ekkert búinn að fara um borð í hann enn þá. Mér svona hryllir við því að fara niður í káetu. En ég verð nú að hafa kjark í að rífa úr honum veiðarfærin og svoleiðis.“

Sjö hafa unnið hjá Þorgilsi á bátnum og í fiskvinnslunni Walvis á Flateyri. Öll sú starfsemi er nú stopp líkt og önnur útgerð í þorpinu.

„Ég veit ekkert hvað er fram undan hjá mér í fiskvinnslunni. Ég var með fiskmarkað líka. Það er ekkert hér á Flateyri sem kemur til með að landa hér. Nema þá í sumar og ég veit ekkert um það. En þetta er allt stopp eins og er,“ segir Þorgils.

Tryggingafélög sáu til þess að bátarnir voru hífðir úr kafi og er nú unnið að uppgjöri á tjóninu.

„Ég hef verið að byggja upp á byggðkvóta hér á Flateyri. Ég var ekkert með bátinn neitt hátt tryggðan. enda reiknaði ég ekki með því að báturinn færist í altjóni nema hann færist þá á hafi.“

Einungis einn bátur er ótryggður af þeim sex sem fóru í höfnina og hann liggur því enn á kafi. Það er Orri ÍS sem er einna þekktastur sem Gamli séniver eftir að hafa verið nýttur til séniverssmygls á sjöunda áratug síðustu aldar. Orri er ekki tengdur neinni atvinnustarfsemi í dag. Að sögn hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar verður reynt að ná bátnum upp sem fyrst í samráði við eiganda.

Fréttin hefur verið lagfærð. Tímasetning séniversmyglsins var leiðrétt.