Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sendur heim af sjúkrahúsi og gekk berserksgang

14.08.2018 - 20:45
Maður í langvarandi fíkniefnaneyslu, sem er greindur með geðklofa, gekk berserksgang heima hjá sér eftir að hafa ítrekað verið sendur heim af Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann hafði áður beðið um að vera lagður inn á geðdeild. Fjölskylda mannsins er örmagna og telur úrræði skorta. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar tekur í sama streng og segir að skortur á starfsfólki valdi því að lítið sé af geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Fjölga þurfi plássum á geðdeildum bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Reyndi að komast inn í marga daga

„Við fjölskyldan, við biðum bara eftir að eitthvað drastískt myndi gerast,“  segir Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, aðstandandi mannsins. „Þá gengur hann berserksgang heima hjá sér og rústar öllu og á endanum er hringt í lögregluna. Þeir færa hann niður á geðdeild og þannig kemst hann inn, sem er ótrúlega sorglegt því hann er búinn að reyna í marga marga daga að komast inn og það þarf þetta til.“

Sendur heim með alvarlegar sjálfsvígshugsanir

Þá hafði maðurinn verið sendur heim af slysadeild, með alvarlegar sjálfsvígshugsanir, tvo daga í röð með róandi lyf. Maðurinn var greindur með geðklofa fyrir 14 árum og hefur verið í neyslu meira og minna allan þann tíma. Fréttastofa hefur áður fjallað um ástand geðdeildarinnar á Akureyri. Þar eru aðeins tíu pláss og deildin er fullnýtt flesta daga ársins. 

Mikil þörf fyrir fíknigeðdeild

Forstöðulæknir geðdeildarinnar, Helgi Garðar Garðarsson, segir að það sé mikil þörf fyrir fíknigeðdeild á Akureyri. Það sé ekki ráðlegt að setja fólk í neyslu á almenna geðdeild. Hann segir þá ekki tækt að senda ungmenni landshluta á milli, eins og staðan er núna, til að komast á fíknigeðdeild.

Mæta fordómum frá almenningi og fagfólki

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að staða fólks með þennan tvíþætta vanda sé vægast sagt slæm. „Þetta fólk stendur höllum fæti, það er skortur á úrræðum og það er skortur á þjónustu. Svo mætir þessi hópur miklum fordómum bæði meðal almennings og því miður líka sumra úr hópi fagfólks,“ segir Anna.

Fimmtán pláss en átján sjúklingar

Utan Akureyrar valdi skortur á starfsfólki því að lítil geðheilbrigðisþjónusta sé á landsbyggðinni. „Fólk kannski flytur til Akureyrar eða Reykjavíkur þar sem helst er von á að sé einhver þjónusta,“ segir Anna. „Svo fer það eftir efnahag þessara smáu bæja hvers þeir eru megnugir.“ Hún segir að fleiri pláss vanti á geðdeildir bæði í Reykjavík og á Akureyri, til að mynda séu fimmtán pláss á Landspítalanum þar sem alla jafna séu átján sjúklingar. Þá þurfi að fjölga búsetu- og meðferðarúrræðum. „Það þarf mikla natni, fagmennsku og svo þarf auðvitað fjármuni til að ganga í þetta mál,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Anna segir að fjölga þurfi búsetu- og meðferðarúrræðum.
evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV