Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sendiráðsmenn staðnir að veiðiþjófnaði

19.08.2013 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverskir sendiráðsmenn voru staðnir að veiðiþjófnaði í Laxá í Kjós um helgina, þegar leiðsögumaður með hóp íslenskra veiðimanna kom að hópnum. Áin er ein af þekktari laxveiðiám landsins og veiðileyfi kosta tugi þúsunda á þessum tíma.

Kjartan Antonsson leiðsögumaður í ánni segist hafa komið með veiðimenn að Kvíslarfossi klukkan þrjú og að þar hafi verið hópur af fólki að kasta spún út í fossinn. Ljóst var að þessi hópur - sjö til átta manns, fullorðnir og börn, höfðu ekki keypt veiðileyfi.

„Ég tala við þau, geri þeim grein fyrir því að þau væru þarna í leyfisleysi og þau væru ekki búin að kaupa veiðileyfi sem eru ekki ókeypis eins og flestir vita,“ segir hann.

Þessa dagana kostar veiðileyfi í Laxá í Kjós 50-60 þúsund krónur á dag, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Kjartan segist hafa fengið þau svör hjá hópnum að þau hefðu bara verið þarna í nokkrar mínútur með stöng og spún. Á staðnum er skilti með leiðbeiningum á ensku. Kjartan segir einstaklingana hafa talað góða ensku. „Þau lögðu bílunum fyrir utan svæðið, þar sem skiltin eru og gengu svo inn fyrir með stöngina greinilega.“

Kjartan segir að fólkið hafi beðist afsökunar og farið að svo búnu. Af myndum sem teknar voru á vettvangi sést greinilega að einn af bílunum sem fólkið kom á er sendiráðsbíll merktur kínverska sendiráðinu. Fréttastofa leitaði í morgun eftir skýringum hjá sendiráði Kína hér á landi, en þar hefur síma ekki verið svarað í morgun.