Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sendiherra Ísraels hitti Eurovision-nefnd RÚV

24.05.2018 - 14:30
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels á Íslandi, átti í dag fund með þeim Eurovision-sendinefnd Ríkisútvarpsins. „Við vildum bara sýna honum þá kurteisi að hitta hann fyrst hann bað um að hitta okkur,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins.

„Hann vildi bara heyra hver staðan var á okkur. En við vorum bara fyrst og fremst að hlusta,“ segir Felix.  

Hann segir Ísraela hafa áhyggjur af þeim hörðu viðbrögðum sem sigur landsins í Eurovision hefur vakið hér á landi en hátt í 26 þúsund hafa skrifað undir undirskriftalista á netinu þar sem skorað er á RÚV að sniðganga keppnina á næsta ári. 

Hann segir að þessi viðbrögð á Íslandi séu einsdæmi hvað Eurovision varðar og að RÚV sé meðvitað um þessa umræðu. Vinna fyrir næstu keppni verði haldið áfram en Ísland þurfi að staðfesta þátttöku í haust.  „Við höldum bara áfram okkar vinnu en ef einhverjar aðrar ákvarðanir verða teknar þá gerist það ekki strax.“ 

Undirskriftasöfnunin hófst eftir mikið mannfall á Gaza-ströndinni um miðjan þennan mánuð. Meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við að RÚV dragi sig úr keppni er Páll Óskar Hjálmtýsson sem sagði í færslu á Facebook að þrátt fyrir ást sína á keppninni fyndist honum það hið besta mál að sniðganga keppnina „hjá þjóðum sem hafa gerst brotlegar við alþjóðalög og stunda mannréttindabrot og blóðuga stríðsglæpi næstum dag hvern.“

Daði Freyr Pétursson, sem hafnaði í öðru sæti í keppninni í fyrra, sagði það hafa komið til greina að hljómsveitin hans Gagnamagnið tæki þátt í Söngvakeppninni 2019. Þau gætu þó ekki ímyndað sér að vera með á meðan Ísraelsríki og her þess beiti Palestínumenn „hrottalegu ofbeldi í næsta nágrenni.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV