Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Senda viðvörun í farsíma á hálendinu

28.08.2013 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Almannavarnir eru viðbúnar óveðurshvelli sem spáð er að gangi yfir landið um helgina. Reynslan af því þegar svipað óveður gekk yfir í september í fyrra verður nýtt í ár.

Það er útlit fyrir að gangi í norðanstorm á föstudag með úrhelli á norðvestanverðu landinu, en mikilli slyddu eða snjókomu til fjalla. Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagði Almannavarnir hafa brugðist við um leið og veðurspá barst á mánudag. Talað hafi verið við bændur og rætt um hvaða ráðstafana ætti að grípa til. Flestir hafi ákveðið að leggja af stað í göngur í gær en aðrir leggi af stað í dag. Hvort sem veðurspáin standist eða ekki þurfi að smala, og bændur hafi kosið að taka enga áhættu.

Það er ekki bara sauðfé á fjalli, heldur líka erlendir ferðamenn, sem þarf að huga að. Víðir segir ferðaþjónustufyrirtæki um land allt hafa verið upplýst um stöðuna og hvött til þess að leiðbeina viðskiptavinum sínum, auk þess sem þeir sem komu með ferjunni Norrænu í vikunni voru upplýstir um veðurspána. Unnið er í samstarfi við þjóðgarðsvörð í Vatnajökulsþjóðgarði, Landsbjörg og hálendisvakt björgunarsveitanna og reynt að gæta þess að fólk sitji ekki fast, líkt og gerðist í fyrra.

Þá segir Víðir í bígerð að senda skilaboð í alla farsíma á hálendinu til þess að vara við óveðrinu. Þetta verði líklega gert á morgun. Til þess hafa Almannavarnir sérstakan búnað. Ýmislegt verði því gert til þess minnka hættu á því að grípa þurfi til björgunarstarfa.