Sellafieldstöðin grotnar niður

Mynd með færslu
 Mynd:

Sellafieldstöðin grotnar niður

10.11.2014 - 15:45
Myndir sem fréttamiðillinn The Guardian birti nýverið af kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield á Englandi sýna að ástand mannvirkja þar er langt frá því að vera gott. Svo slæmt reyndar að sumir sérfræðingar telja verulegar líkur séu á að þarna gætu orðið alvarleg óhöpp verði ekki að gert strax.

Stefán Gíslason ræðir um ástand Sellafieldstöðvarinnar í Samfélaginu í dag.

Samfélagið mánudaginn 10. nóvember 2014

---------------------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns um Sellafield

Á dögunum birti The Guardian myndir sem teknar voru við kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield á vesturströnd Englands. Þessar myndir benda til að ástand sumra mannvirkja stöðvarinnar sé orðið verulega bágborið og sérfræðingar hafa jafnvel haft á orði að verulegar líkur séu á að þarna verði alvarleg óhöpp ef ekki verði gripið til tafarlausra aðgerða.

Á myndunum frá Sellafield má m.a. sjá afar illa farna steypu í tönkum sem geyma mikið magn af geislavirkum úrgangi. Sprungur eru víða komnar í steypuna, illgresi er farið að vaxa í sprungunum og mávar sjást synda á yfirborði vatns sem sest hefur fyrir. Að sögn forsvarsmanna stöðvarinnar eru þó afar litlar líkur á að ráðist verði í endurbætur á þessum tilteknu tönkum á næstu áratugum. Kostnaðurinn við viðhald mannvirkja í Sellafield er gríðarlegur og það sama gildir um niðurrif þess hluta sem er orðinn úr sér genginn. Árlega renna um 1,7 milljarðar sterlingspunda, eða um 330 milljarðar íslenskra króna, af opinberu fé til niðurrifs og frágangs, en þessir peningar duga skammt og því þarf að forgangsraða. Í yfirlýsingu frá rekstraraðila stöðvarinnar segir að myndirnar endurspegli ekki stöðu mála í dag, en vissulega gefi þær vísbendingu um umfang vandans.

Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield var talsvert í umræðunni á Íslandi fram yfir aldamótin 2000. Málið bar nokkrum sinnum á góma á Alþingi og á síðustu 25 árum hafa verið samþykktar nokkrar ályktanir um hættuna sem Íslendingum gæti stafað af starfseminni þar og í Dunray þar sem líka er sýslað með kjarnorkuúrgang. Á þessum tíma var geislavirka efninu teknetíum-99 sleppt í hafið frá stöðinni með reglubundnum hætti, en þeirri losun var hætt að mestu eða öllu leyti árið 2004 eftir að meðal annars Norðurlandaráð og ríkisstjórnir Norðurlandanna höfðu beittu sér fyrir því að þessari losun myndi linna. Síðan hefur lítið heyrst um þessi mál, þó að rekstri stöðvarinnar fylgi enn ýmis áhætta í tengslum við flutninga á kjarnorkuúrgangi til stöðvarinnar og geymslu hans þar.

Árið 2010 sendu Geislavarnir Noregs frá sér skýrslu þar sem fram kom að losun í andrúmsloftið frá Sellafield vegna slyss eða óhapps gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir norska náttúru og dýralíf og að ef 1% af því magni kjarnorkuúrgangs sem geymt er í stöðinni slyppi út í andrúmslofið gæti það leitt til sjö sinnum meira geislavirks úrfellis í Noregi en Tsjernóbyl-slysið olli, með tilheyrandi afleiðingum fyrir landbúnað, matvælaframleiðslu og heilbrigði dýra og manna. Í framhaldi af útkomu þessarar skýrslu, og væntanlega með hliðsjón af atburðum í Fukushima í Japan 2011, lögðu nokkrir Alþingismenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum fram tillögu til þingsályktunar vorið 2012 um að ríkisstjórninni yrði falið að hvetja til þess að bresk stjórnvöld og stjórnendur stöðvarinnar í Sellafield tryggi að umfang hágeislavirks vökva sem geymdur er í stöðinni verði komið úr þúsund tonnum niður í 200 tonn 2016 og að íslensk stjórnvöld taki jafnframt undir þá kröfu að hætt verði að taka við geislavirkum úrgangi þar til tilsettu marki er náð, öryggi verði bætt í stöðinni og ákvörðun tekin um að loka henni hið fyrsta. Einnig var lagt til að ríkisstjórnin léti meta hugsanleg áhrif sem slys eða óhapp í Sellafield gæti haft á íslenskt hafsvæði og landsvæði, matvælaframleiðslu og heilbrigði manna og dýra á svipaðan hátt og Geislavarnir Noregs hefðu gert.

Lausleg leit á vefsvæði Alþingis bendir til að þingsályktunartillagan frá 2012 hafi aldrei hlotið afgreiðslu. Hins vegar hefur málinu verið hreyft á öðrum vettvangi annað slagið, meðal annars innan Norðurlandaráðs. En svo er eins og allt róist á meðan engar fréttir berast af alvarlegum óhöppum í stöðinni.

Myndirnar frá Sellafield virðast ekki hafa vakið neina umræðu hérlendis. Sama má segja um fréttir frá því í apríl um að geislavirkur úrgangur úr urðunarstaðnum Grigg í grennd við kjarnorkuendurvinnslustöðina muni að öllum líkindum sleppa út í hafið á næstu öld vegna hækkaðs sjávarborðs sem muni leiða til svo mikils landbrots að úrgangurinn standi eftir óvarinn fyrir ágangi sjávar. Samtals mun þarna vera um að ræða um milljón rúmmetra af geislavirkum úrgangi og geislavirkum hergögnum sem hafa fallið til á síðustu 55 árum. Umhverfisstofnun Bretlands viðurkennir að staðsetning urðunarstaðarins hafi verið mistök og að í dag yrði slíkri starfsemi tæplega valinn staður svo nálægt hafi, en síðast þegar fréttist var áætlun rekstraraðila um að urða þarna 800.000 rúmmetra af geislavirkum úrgangi til viðbótar til skoðunar hjá stofnuninni.

Líklega eru vandamálin sem tengjast nýtingu kjarnorku til orkuframleiðslu einmitt sú tegund vandamála sem mannshugurinn er hvað duglegastur við að gleyma. Í þessu sambandi er til dæmis áhugavert að velta fyrir sér viðbrögðum almennings og stjórnvalda víða um heim eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl í Úkraínu 1986. Menn vissu svo sem fyrir að kjarnorkuver væru ekki 100% örugg frekar en neitt annað, en slysið rifjaði þá vitneskju upp með einkar harkalegum hætti. Í kjölfarið var mikið rætt um öryggi kjarnorkuvera og hvort forsvaranlegt væri að halda rekstri sumra þeirra áfram. Umræðan róaðist svo smátt og smátt næstu árin á eftir og eftir því sem umræðan um loftslagsbreytingar varð meira áberandi heyrðust æ oftar raddir sem töldu aukna nýtingu kjarnorku vera eina vænlegustu lausnina til að sporna við slíkum breytingum. En svo kom nýtt högg í mars 2011 þegar kjarnorkuverið í Fukoshima í Japan varð fyrir skemmdum í náttúruhamförum. Í framhaldinu lokuðu Japanir öllum kjarnorkuverum sínum, en þau voru 48 talsins og sáu Japönum fyrir um 30% af allri raforku sem þar var notuð. Nýlega var svo tekin ákvörðun um að hefja framleiðslu á ný í einhverjum þeirra. Vissulega er liðið hátt á fjórða ár frá slysinu í Fukushima, en fyrir leikmann er erfitt að sjá hvernig tíminn einn og sér getur dregið úr áhættunni á að önnur óhöpp verði. Kannski snýst þetta allt um hæfileika mannshugans til að gleyma því sem er óþægilegt að muna. En steypan í Sellafield er jafn illa farin eftir sem áður.