Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Selja öll lyf úr landi þrátt fyrir lyfjaskort

15.09.2019 - 19:35
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þrátt fyrir lyfjaskort selur eina lyfjaverksmiðjan á Íslandi öll lyf úr landi. Þó er stefnt að breytingum á því á næstu árum. Framkvæmdastjóri Coripharma segir að Ísland sé áhugaverður markaður fyrir lyfjaframleiðendur. Coripharma er eini lyfjaframleiðandinn hér á landi sem framleiðir lyfseðilsskyld lyf. Skortur hefur verið á tugum lyfja síðustu ár.

Langan lista er að finn á vef Lyfjastofnunar yfir lyf sem eru eða hafa verið ófáanleg hér á landi. Í sumum tilvikum eru lyf ófáanleg í ákveðnum styrkleika eða stærðarpakkningum. Þá hafa lyf stundum verið afskráð vegna þess að nýrri lyf eru komin á markað en í mörgum tilvikum er það ekki fáanlegt um lengri eða skemmri tíma. Líkt og fréttastofa hefur greint frá getur þetta valdið þeim sem á lyfjunum þurfa að halda miklum óþægindum. Oft þarf fólk þá aftur að ná í lækni og fá lyfseðil fyrir öðru lyfi eða að fá lyf á undanþágu og jafnvel þá án niðurgreiðslu ríkisins. 

Hér lagðist framleiðlsa á lyfseðilsskyldum lyfjum af fyrir þremur árum þegar fyrirtækið Teva keypti starfsemi Actavis. Lyfjaframleiðsla hófst að nýju í sumar þegar hundrað manna hópur fyrrverandi starfsmanna Actavis hófu lyfjaframleiðslu í verktöku. Lyfin eru hins vegar ekki seld í apótekum hér á landi.

„Þau fóru til fyrsta kaupandans sem er í Frakklandi og nú er verið í vikunni að framleiða meira fyrir sama kaupanda og líka annan í Þýskalandi. Framleiðslugetan okkar er um einn og hálf milljarður taflna. Fyrsta heila árið sem við framleiðum á næsta ári þá verður vel innan við helmingur af verksmiðjunni þá,“ segir Bjarni K. Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Coripharma.

Eftir þrjú ár er búist við að náð verði fullum afköstum.

Nú hafa verið sagðar fréttir af því að það er viðvarandi skortur á lyfjum á Íslandi. Hvers vegna eruð þið ekki að framleiða fyrir íslenskan markað?

„Ef það væri svo einfalt þá myndum við setja allt í gang til að leysa það vandamál. En við erum því miður hvorki vandamálið né lausnin við vandamálinu. Við erum að framleiða lyf fyrir þá sem hafa markaðsleyfi. Þegar við settum verkmiðjuna í gang núna þá erum við ekki með markaðsleyfi fyrir nein lyf. Við erum fyrst og fremst að framleiða fyrir þá sem eiga markaðsleyfi,“ segir Bjarni.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

En það á eftir að breytast. Hjá Coripharma er unnið að þróun á samheitalyfjum og eftir 2-3 ár vonast menn til að þessi lyf verði komin á markað, og jafnvel íslenskan markað.

Sumir segja að Ísland sé ekki áhugaverður markaður fyrir lyfjaframleiðendur. Hver er þín skoðun á því?

„Ég myndi alls ekki orða það þannig. Ísland er áhugaverður markaður sem hluti af stærri heild. Margir framleiðendur horfa á Ísland sem hluta af Norðurlöndum og það er viðhaft svipað fyrirkomulag þegar kemur að útboðum og þátttöku í lyfjakostnaði eins og þar er,“ segir Bjarni.

Þá sé lyfjaskortur víðar í Evrópu.