Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Selastofninn 77% minni en 1980

16.03.2017 - 20:21
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Stofn landsela hér við land er þriðjungi minni en hann var fyrir 6 árum samkvæmt nýju mati á stærð stofnsins. Stofninn er talinn í hættu.

Samkvæmt nýrri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand landselastofnsins hefur selunum fækkað allt frá árinu 1980 þegar stærð stofnsins var fyrst metin. Í síðustu selatalningu var flogið meðfram allri strandlengju landsins og 3383 selir taldir. Stofnstærðin er áætluð 7652 selir. Stofninn hefur minnkað um 77% frá 1980 og hann er 32% minni en í síðustu selatalningu, árið 2011. Markmið stjórnvalda er að stofninn telji 12 þúsund seli en talsvert vantar upp á það. Stofninn telst því vera í hættu. Lítið er vitað hvers vegna selum hefur fækkað en í skýrslunni segir að líklega hafi meðafli í fiskveiðum og beinar selveiðar hoggið djúp skörð í stofninn. 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV