Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sektir úr radarmælingum sjást varla

15.10.2015 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Heimildir fréttatofu herma að lögreglumenn, sem eru orðnir langeygir eftir kjarabótum, hafi hringst á og rætt saman á facebook um aðgerðir sem miða að því að svelta ríkissjóð með því að draga úr hraðasektum. Yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, merkir greinilega breytingu.

Fela sig síður fyrir ökumönnum

Á ruv.is var í gær haft eftir ónafngreindum lögreglumanni að þessar aðgerðir hefðu staðið yfir í um mánuð og að þær væru á landsvísu. Einn orðaði það svo að þeir vildu svelta ríkissjóð. Annar sagði lögreglumenn ekki hlynnta því að skila tekjum í ríkiskassann á sama tíma og ríkið hefði ekki rætt við þá. Lögreglumenn beiti frekar tiltali heldur en að draga upp sektarbókina. Þá geri þeir sig sýnlilegri við hraðeftirlit til að minnka líkur á sektum. Þeir sekti hins vegar áfram fyrir gróf hraðabrot og hraðamyndavélar virki áfram.

Erfiðlega gengur að fá tölur sem varpa ljósi á umfang þessara aðgerða. Starfsmenn á innheimtumiðstöð sekta á Blönduósi eru í verkfalli og sömuleiðis skrifstofufólk hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu.

Merkja breytingu

Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, segir í samtali við fréttastofu að hann merki greinlega breytingu síðustu vikur. Kærur um hraðaakstursbrot komi ekki inn nema sérstakar ástæður séu þar að baki. Hann segir þó erfitt að meta umfangið eða staðfesta hvað veldur. Lögreglumenn hafi dregið úr svokallaðri frumkvæðisvinnu eins og hraðamælingum í umferðinni og þá dragi einnig úr umferð á haustin.

Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, segir einnig augljóst að mun færri kærur berist inn en hann hefur ekki tölur um fjölda ökumanna sem fengu tiltal.

Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, hafði ekki heyrt um aðgerðirnar en benti á að verulega hafi þurft að draga úr akstri lögreglubíla vegna niðurskurðar og hraðamælingum um leið.