Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seinka lokun Borgartúns til klukkan 11

04.09.2019 - 09:21
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Búið er að seinka lokun Borgartúns til klukkan 11 vegna komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins. Þá er ítrekað að gangandi og hjólandi vegfarendur geta farið um lokaðar götur, haldi þeir sér utan girðinga sem afmarka lokanir.

Unnar Már Ástþórsson, varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fór yfir nýjustu fréttir af lokunum í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins klukkan 9. 

„Katrínartúni, milli Borgartúns og Sæbrautar, var lokað klukkan 9. Borgartúni verður lokað klukkan 11, frá Þórunnartúni og að Nóatúni. Þó verður hægt að aka að húsi númer 18 í Borgartúni til þess að halda starfsemi þar gangandi. Svo verður Sæbraut lokað klukkan 12. Lokanir munu gilda til klukkan 17 í dag,“ sagði Unnar Már, en ítrekaði að aðeins lokað sé fyrir bílaumferð.

„Gangandi og hjólandi vegfarendur geta farið þessar leiðir, en verða þá utan girðingar sem afmarka lokanir.“

Unnar Már undirstrikaði jafnframt að búast megi við miklum umferðartöfum seinni partinn, þegar jafnan er mikið álag á umferðaræðum.

„Þetta verður mjög erfitt. Við biðjum fólk að skilja okkur skilning og þolinmæði. Það verða miklar tafir seinni partinn í dag.“

Fólk mun komast leiðar sinnar

Lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu nú á tíunda tímanum, þar sem sagt er að fólk komist leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu í dag þrátt fyrir alla umfjöllun um lokanir:

„Þrátt fyrir lokanir gatna vegna heimsóknar varaforseta Bandaríkjanna er rétt að undirstrika að fólk kemst leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, en margir hafa haft samband við lögreglu og lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa. Hjá einhverjum gæti það tekið lengri tíma en venjulega og enn fremur kunna sumir að þurfa að leggja lengra frá vinnustaðnum sínum en þeir gera venjulega.

Við ítrekum upplýsingar um lokun Sæbrautar, á milli Snorrabrautar og Kringlumýrarbrautar, frá því um hádegisbil og þar til síðdegis. Sömuleiðis er lokað fyrir umferð um hluta Borgartúns eins og áður hefur komið fram. Sama gildir um umferð í Katrínartúni, á milli Borgartúns og Sæbrautar, og því er ekki hægt að aka frá Guðrúnartúni inn á Katrínartún. Á eftir verður lokað fyrir umferð í Borgartúni frá Þórunnartúni að Nóatúni, en auk þessa má búast við tímabundnum umferðartöfum annars staðar í umdæminu. 

Vegfarendur eru beðnir um að sýna þolinmæði og tillitssemi.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV