Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segjast hafa komið Trump í forsetastólinn

epa06616295 Alexander Nix, CEO of the London-based political consulting firm 'Cambridge Analytica' leaves his offices through the back door in London, Britain, 20 March 2018. Britain's Information Commissioner Elizabeth Denham has applied
Alexander Nix forðaði sér út um bakdyrnar eftir að hann var rekinn úr forstjórastólnum hjá Cambridge Analytica, þar sem hann var sjálfur á meðal stofnenda. Mynd: EPA-EFE - EPA
Alexander Nix, sem var rekinn úr stöðu forstjóra hjá breska greiningarfyrirtækinu Cambridge Analytica á þriðjudag, segir það hafa verið hann og hans fólk sem í raun kom Donald Trump í Hvíta húsið. Þetta hafi þeir gert með markvissum en órekjanlegum aðgerðum á samfélagsmiðlum, sem byggðu á upplýsingum úr gagnagrunni Facebook. Þá segist hann ítrekað hafa hitt Trump sjálfan að máli á meðan fyrirtækið vann fyrir kosningateymi hans.

Þetta kemur fram í öðrum hluta umfjöllunar fréttastofu Channel 4 um málið, sem birt var á þriðjudagskvöld. Í samtölum við Nix og fleiri háttsetta yfirmenn Cambridge Analytica sem tekin voru upp á laun, segjast þeir hafa leikið lykilhlutverk í að koma Trump til valda.

„Við unnum alla rannsóknavinnuna, öfluðum allra gagnanna, unnum alla greiningarvinnuna og skilgreindum markhópana," sagði Nix, sem taldi sig vera að tala við mögulega viðskiptavini frá Sri Lanka. Yfirmaður gagnavinnslu hjá Cambridge Analytica, Alex Tayler, benti á að Trump hefði fengið þremur milljónum færri atkvæði á landsvísu en keppinautur hans um forsetaembættið, Hillary Clinton, en samt fengið fleiri kjörmenn og þannig unnið sigur.

Þetta, sagði Taylor, var bein afleiðing greiningarvinnu og skipulagningar Cambridge Analytica, sem ráðlagði kosningateymi Trumps um hvernig best væri að haga kosningabaráttunni á hverjum tíma út frá greiningu þeirra gagna sem fyrirtækið hafði aflað frá 50 milljónum Facebook-notenda með ólögmætum hætti.

Þá fullyrti Tayler að Cambridge Analytica hafi verið á bakvið eitt vinsælasta en jafnframt umdeildasta slagorð kosningabaráttunnar, Defeat Crooked Hillary, eða Sigrum spilltu Hillary, sem fór sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum og víðar. „Við settum upplýsingar [um meint brot Hillary] bara inn í æðakerfi Internetsins og fylgdumst svo með þessu vaxa, ýttum aðeins undir það öðru hvoru og fylgdumst með því taka á sig mynd," sagði Tayler. „Og þannig síast þetta inn í netsamfélagið, en án allra merkinga, þannig að þetta er alveg órekjanlegt."

Þá láta yfirmenn Cambridge Analytics að því liggja að í vinnu sinni fyrir bandaríska viðskiptavini hafi þeir skipulagt verkaskiptingu milli opinberra kosningateyma annars vegar og sjálfstæðra stuðningshópa frambjóðandans hins vegar. Þetta, segir í breskum fjölmiðlum, gæti flokkast undir ólöglegt samráð og samstarf, samkvæmt bandarískum kosningalögum.

Nix, sem er einn af stofnendum Cambridge Analytica, var rekinn úr forstjórastólnum á þriðjudag, sem fyrr segir, og þurfti að yfirgefa höfuðstöðvarnar þegar í stað. Forsvarsmenn Facebook sverja af sér alla sök og segja Cambridge Analytica hafa notað gögnin í óleyfi. Kallað er eftir ítarlegri rannsókn á framferði Cambridge Analytica og Facebook í Bretlandi.

Bent er á að jafnvel þótt Facebook hafi ekki veitt Cambridge Analytica samþykki sitt fyrir þessari notkun á gögnum notenda samfélagsmiðilsins, þá sé brýnt að rannsaka, hvort Facebook gæti öryggis viðskiptavina sinna með fullnægjandi hætti. Hlutabréf í Facebook hafa hríðfallið síðan þetta mál kom fyrst upp í blaðinu Observer, helgarútgáfu The Guardian, á sunnudag, en Observer og Channel 4 News hafa unnið að þessari rannsókn í sameiningu.