Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segjast hafa gögn sem sanna peningaþvott

07.06.2015 - 09:49
Erlent · fifa
epa04770651 Former FIFA vice president Austin Jack Warner, gestures as he leaves the office of the Sunshine Newspaper which he owns in Arouca, East Trinidad, on May 27, 2015. Warner, who was also the former President of Concacaf, was named among current
Jack Warner Mynd: EPA - EFE
Jack Warner, fyrrum varaforseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, notaði sjálfur það fé sem knattspyrnusamband Suður-Afríku greiddi fyrir að halda heimsmeistararmótið í knattspyrnu árið 2010. BBC greinir frá því að miðillinn hafi undir höndum gögn sem sanna þetta.

BBC segir gögnin sýna að þrjár millifærslur hafi verið gerðar af reikningunum FIFA á reikning knattspyrnusambands Concacaf, knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku. Warner er prókúruhafi af þeim reikningi. Alls millifærði FIFA tíu milljónir bandaríkjadala á reikninginn, jafngildi um 1,3 milljarða íslenskra króna. Warner notaði svo peninginn sjálfur, greiddi meðal annars kreditkortareikning sinn og millifærði tæpar fimm milljónir bandaríkjadala á reikning matvöruverslunar í Trínidad og Tóbagó, heimalandi sínu. Saksóknari í Bandaríkjunum segir að peningarnir hafi farið þaðan í vasa Warners í formi reiðufjár. Hann hafi þannig notað verslunina til að þvo peninga.

Warner hefur verið ákærður fyrir meinta spillingu ásamt þrettán áhrifamönnum innan FIFA. Hann neitar öllum ásökunum ásökunum á hendur sér.

Fimm dagar eru síðan skjal var birt í fjölmiðlum sem sýndi nákvæm fyrirmæli um hvernig knattspyrnusamband Suður-Afríku skyldi haga greiðslu tíu milljóna bandaríkjadala til samtaka sem kynna fótbolta í Karabía hafinu.

Suðurafríska knattspyrnusambandið gekkst við því að hafa borgað Warner fé en segir að ekki hafi verið um mútur að ræða. Thabo Mbeki, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, neitaði einnig ásökunum um að stjórnvöld hafi greitt mútufé. Interpol lýsti eftir Warner eftir að gögnin komust upp.