Segja þjóðarmorð yfirvofandi í Bangladess

16.09.2019 - 17:31
epa07783993 (FILE) - A general view of a Rohingya refugees' makeshift camp in Kutubpalang, Cox Bazar district, Bangladesh, 26 August 2018 (reissued 21 August 2019). Bangladesh is set to start repatriations for Rohingya Muslim refugees on 22 August, media reported. The Bangladeshi refugee commissioner said only 21 families out of 1,056 selected for repatriation were willing to be interviewed by officials about whether they wanted to return. Rohingya refugees in Bangladesh camps are said to fear they will face violence and oppression once back in Myanmar, media added.  EPA-EFE/MONIRUL ALAM
Hátt í 750 þúsund Róhingjar frá Mjanmar búa í flóttamannabúðum í Bangladess. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rannsóknarnefnd mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna telur að alvarleg hætta sé á þjóðarmorði á sex hundruð þúsund Róhingjum sem enn eru í Mjanmar. Tugþúsundir hafa hrakist að heiman að undanförnu undan ofsóknum yfirvalda.

Rannsóknarnefndin kynnti í dag skýrslu sína um ástandið í Mjanmar. Hún hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að þjóðarmorð hafi verið framið árið 2017 og krefst þess að hæst settu herforingjar landsins verði sóttir til saka, þar á meðal æðsti yfirmaðurinn Min Aung Hlaing.

Árið 2017 flúðu 740 þúsund Róhingjar til Bangladess. Í skýrslunni segir að hverfandi líkur séu á að þeim verði leyft að snúa aftur heim. Þá sæti þeir sex hundruð þúsund ofsóknum sem eftir eru. Þeir búi við ömurlegar aðstæður sem fari sífellt versnandi. Ráðamenn þræti fyrir að beita fólkið harðræði, eyðileggi sönnunargögn og neiti að taka þátt í rannsókn á glæpunum.

Yanghee Lee, sem stýrt hefur starfi rannsóknarnefndarinnar greindi frá því að 65 þúsund Róhingjar í héruðunum Rakhine og Chin hafi hrakist að heiman það sem af er ári. Hún fór á dögunum hörðum orðum um Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, og sagði hana vaða í villu um mannréttindabrot og ofbeldi gegn Róhingjum. Hún ætti að rísa upp og tjá sig um þá meðferð sem Róhingjar hefðu sætt áratugum saman.

Bandaríkjamenn samþykktu í sumar refsiaðgerðir gegn yfirmanni hersins í Mjanmar og nokkrum herforingjum og líktu aðgerðum þeirra við þjóðernishreinsanir. Lee segir að Suu Kyi eigi skilið sömu meðferð. Hún eigi það ekki skilið að vera kölluð baráttukona fyrir lýðræði.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi