Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segja stjórnsýsluúttekt löngu tímabæra

08.09.2019 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Landsambands lögreglumanna telur ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að fara fram á alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra löngu tímabæra.

„Um langt skeið hefur ríkt mikil óánægja meðal lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra. Óánægja þessi er meðal annars til komin vegna fatamála lögreglumanna sem hafa verið í ólestri en einnig vegna annarra mála svo sem bílamála,“ segir í tilkynningu sem Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna sendi fyrir hönd sambandsins.

Dómsmálaráðherra ákvað í síðustu viku að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra frá og með næstu áramótum. Óánægju hefur gætt innan lögreglu vegna reksturs bílamiðstöðvarinnar sem átti til skamms tíma að reka öll ökutæki lögreglunnar í landinu. Lögreglustjórar telja að embætti þeirra hafi verið ofrukkuð um árabil og nemi sú upphæð hundruðum milljóna. Þá óskaði ráðherra eftir því að ríkisendurskoðun myndi geri stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra í heild sinni.

Í tilkynningu sambandsins kemur einnig fram að stjórnin styðji erindi þeirra sérsveitarmanna sem sent var dómsmálaráðuneyti til umfjöllunar. Sérsveitarmenn kvörtuðu til dómsmálaráðherra yfir framkomu og stjórnarháttum Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, í júní.

„Stjórn Landssambands lögreglumanna telur að fái sá ágreiningur og sú gagnrýni sem beinst hefur að embætti ríkislögreglustjóra ekki skjóta úrlausn, muni það bitna á þjónustu við borgarana, öryggi þeirra og öryggi lögreglumanna á landsvísu. Slíkt ástand er til þess fallið að rýra traust almennings til lögreglu,“ skrifar Snorri.