Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segja smálánafrumvarp ekki ganga nógu langt

15.10.2019 - 07:01
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Neytendasamtökin telja að lagafrumvarp sem stefnt er til höfuðs smálánum gangi of skammt. Ekki sé nóg gert til að stöðva hvata til starfseminnar.

Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var lagt fram á Alþingi í gær. Það á að taka af allt tvímæli um að íslensk lög gildi um smálán sem veitt eru hér á landi og að fólk geti ekki samið um verri kjör en kveðið er á um í lögum. Frumvarpinu er ætlað að hemja starfsemi smálánafyrirtækja sem hafa reynst mörgum þung byrði síðustu ár. 

Neytendasamtökin telja ekki nógu langt gengið, segir Breki Karlsson, formaður samtakanna. „Það vantar að stöðva alla hvata til smálánastarfseminnar.“ Breki segir að meðal annars þyrfti að lækka leyfilegan heildarlántökukostnað íslenskra neytendalána. „Hvergi nokkurs staðar þar sem eru hámarksvextir eru þeir jafn háir og á Íslandi. Hér eru þeir 50 prósent auk Seðlabankavaxta. Þannig að 53 prósent rúmlega á Íslandi hér núna, sem er í rauninni alveg galið.“

Neytendasamtökin vilja að hámarksvextir verði fimmfaldir Seðlabankavextir, sem eru hærri en hæstu yfirdráttarvextir nú um stundir.

Einnig þarf að taka á innheimtunni segir Breki. Lög takmarka kostnað við fruminnheimtu og milliheimtu krafna. Öðru gildir um löginnheimtu. „Þá gildir bara villta vestrið. Það eru engin lög.“ Þetta nýti smálánafyrirtæki og innheimtufélög þeirra til þess að hlaða innheimtukostnaði á kröfur. Því leggja Neytendasamtökin til að farin verði svipuð leið og í Finnlandi þar sem hámarksvextir séu 20 prósent og innheimtukostnaður 50 prósent.